„Við hvað starfar þú?“
Heildaratvinnuleysi á landinu öllu var í desember 12,1%. Mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum; 26,2% meðal kvenna og 21,4% meðal karla með tilheyrandi efnahagsvanda heimilanna.
Tengsl eru milli heilsufars og efnahags og fátækt getur leitt til varanlegs heilsubrests og þunglyndis. Atvinnuleysi leiðir oft til félagslegrar einangrunar og skaðar sjálfstraustið. Ekki síst hér á landi þar sem hátt atvinnustig hefur verið einkenni þjóðarinnar og samræður ókunnugra hefjast oftar en ekki á orðunum: „Við hvað starfar þú?“ Þátttaka í atvinnulífinu er einskonar aðgangskort að samfélaginu og hluti af sjálfsmynd.
Þeir sem búa við atvinnuleysi til langs tíma glíma oftar en ekki við neikvæðar aukaverkanir þess. Aukaverkanir sem hafa áhrif á alla fjölskylduna, ekki síst börn og ungmenni. Mörg börn á Suðurnesjum búa við það ástand að annað foreldri eða bæði eru atvinnulaus. Gæta þarf vel að börnum á heimilum þar sem einstætt foreldri eða báðir foreldrar hafa misst vinnu.
Um leið og unnið er að fleiri atvinnutækifærum á Suðurnesjum þarf að huga að aukinni aðstoð við þessar fjölskyldur og styrkja samstarf milli þjónustustofnana, svo sem félagsþjónustu, Vinnumálastofnunar og heilsugæslunnar. Alls ekki má láta atvinnulaus ungmenni afskiptalaus heldur virkja þau til athafna í gegnum stofnanir svæðisins.
Neikvæð áhrif kreppunnar koma skýrast í ljós í afleiðingum atvinnuleysis á einstaklinga og fjölskyldur. Langtímaatvinnuleysi getur leitt til fátæktar og dæmin sýna að fátækt barn er líklegt til að vera fátækur fullorðinn. Varanlegar afleiðingar fátæktar eru því bæði skaðlegar börnum og fullorðnum og mikið í húfi að komið verði í veg fyrir að heimilin verði fátæktinni að bráð.
Það er skylda stjórnvalda að leggja Suðurnesjamönnum lið. Styrkja menntastofnanir, félagsþjónustuna, heilsugæsluna, lögregluna og sóknaráætlanir svæðisins og uppbyggingasjóði. Við jafnaðarmenn viljum leggjast á árarnar til að greiða götu fjölbreyttra og skynsamlegra atvinnutækifæra og horfa á lausnir ekki síst út frá sjónarhóli barna.
Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.