Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

„Að hvetja þingmenn til dáða“
Föstudagur 18. september 2020 kl. 07:01

„Að hvetja þingmenn til dáða“

Atvinnuleysi í Reykjanesbæ nálgast nú 20%. Staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum er alvarleg. Það er skylda stjórnvalda að bregðast við með öllum tiltækum ráðum. Þingmenn kjördæmisins geta ekki setið aðgerðalausir hjá. Samstarf þeirra við bæjarstjórnir og bæjarfulltrúa er mikilvægt. Traust og gagnkvæm virðing verður að ríkja. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar bókaði nýverið um alvarlega stöðu í atvinnumálum og hvatti ríkisstjórnina og þingmenn svæðisins til dáða.

Ég fylgist reglulega með bæjarstjórnarfundum í Reykjanesbæ á netinu. Auk þess leitast ég við að lesa fundagerðir annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Í síðasta mánuði var rætt um atvinnumál á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ. Þar var meðal annars til umræðu tillaga sem ég flutti á Alþingi í júní síðastliðnum um varnartengdar framkvæmdir í Helguvík. Ég vil víkja hér aðeins að umræðunni um málið á bæjarstjórnarfundinum, en fyrst aðeins um tillögu mína á Alþingi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Endurbætur Helgvíkurhafnar hefðu skapað fjölmörg störf

Við afgreiðslu fjáraukalaga í júní síðastliðnum flutti ég breytingartillögu um 235 milljón króna mótframlag Íslands til Mannvirkjasjóðs NATO. Um er að ræða fyrsta áfanga í fimm ára framkvæmdaáætlun fyrir Ísland og um leið fyrsta framlag Íslands, sem verður samtals 1.175 milljónir króna á fimm árum. Framlag NATO nemur allt að fjórtán milljörðum króna samkvæmt svari utanríkisráðherra á Alþingi og var einkum ætlað til endurbóta á hafnaraðstöðunni í Helguvík, sem hefði síðan komið að borgaralegum notum. Framkvæmdin hefði skapað fjölmörg störf á erfiðum tímum á Suðurnesjum. Tillagan var efnislega sú sama og utanríkisráðherra lagði fram í ráðherranefnd um ríkisfjármál í apríl. Tillaga ráðherra fékk ekki afgreiðslu í nefndinni vegna ágreinings í ríkisstjórninni. Með því að leggja tillöguna fyrir Alþingi fékk þingið í fyrsta sinn tækifæri til að fjalla um málið og greiða um það atkvæði. Tillagan var því miður felld af ríkisstjórnarflokkunum. Ekkert verður því að milljarða framkvæmdum í Helguvík, ekki meðan þessi ríkisstjórn situr.

Ógagnlegur málflutningur bæjarfulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ

Á fyrrgreindum bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ hafði annar af bæjarfulltrúum Framsóknar þetta að segja um tillögu mína á Alþingi: „Mér fannst þetta sérstakt upphlaup og gert fyrst og fremst til þess að slá einhverjar pólitískar keilur.“ Einn af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks hafði þetta að segja: „Ég er ekki að biðja um svona vinnubrögð þingmanna, koma með tillögur inn á þing sem eru dæmdar til að vera felldar.“

Skoðun bæjarfulltrúanna liggur fyrir. Vönduð tillaga á Alþingi um mikilvægar framkvæmdir við höfnina í Helguvík, sem hefði skapað fjölmörg störf er: „upphlaup“ - „pólitískar keilur“ og „ekki svona vinnubrögð“. Í framhaldi gerðu þeir síðan lítið úr utanríkisráðherra og sögðu „málið illa reifað“ og „ekki tilbúið“. Eðlilegt er að spurt sé fyrir hverja eru bæjarfulltrúarnir að vinna?

„Að hvetja þingmenn til dáða“ hefur óneitanlega sérstakt yfirbragð hjá áðurnefndum bæjarfulltrúum í Reykjanesbæ.

Birgir  Þórarinsson.
Höfundur er þingmaðu