Yfirstjórn öldrunarmála - hvar á hún að vera?
Að undanförnu hafa verið í gangi umræður um rekstur nýs hjúkrunarheimilis á Nesvöllum. Við íbúar hér Suðurnesjum höfum orðið vitni að hörðum deilum milli kjörinna bæjarfulltrúa sveitarfélaga hér á svæðinu þar sem tekist er á um afdrif hjúkrunarheimilisins Garðvangs.
Fyrir mig sem leikmann er erfitt að móta sér skoðun á þessu, en það eru samt sem áður nokkur atriði sem ég hef verið að velta vöngum yfir og mér finnst skipta máli.
Þessi málaflokkur er auðvitað okkur öllum mikilvægur hvort sem við erum ung eða gömul, því að öll viljum við fá að verða gömul og fá að njóta þeirrar þjónustu sem öldruðum einstaklingum er boðið upp á hvænær svo sem það verður.
Það sem vekur athygli mína er að bæjarráð Reykjanesbæjar virðist vera sammála um að ganga til samninga við Hrafnistu um rekstur hjúkrunarheimilis á Nesvöllum. Garðvangi skuli lokað og öllum starfsmönnum sem unnið hafa hjá DS verði sagt upp.
Væntanlega og vonandi fær stærstur hluti þeirra vinnu hjá nýjum rekstraraðila en það er ekkert sjálfgefið.
Líklegt er að þetta verði niðurstaðan, ráði þessir bæjarfulltrúar algjörlega för, en mér þætti rétt að staldra aðeins við og ígrunda nokkur atriði.
Aðrir möguleikar?
Mér finnst nefnilega, miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið, að það liggi nefnilega ekkert í augum uppi að rétt sé að færa ábyrgð og yfirstjórn öldrunarmála burt af svæðinu.
Erum við ekki fær um að ráða við þennan málaflokk sjálf?
DS hefur í áratugi séð um þennan málaflokk og að þeim rekstri hafa komið fulltrúar úr flestum byggðarlögum hér af Suðurnesjum. Ég fæ ekki séð að því þurfi endilega að breyta. Af hverju heldur DS ekki bara áfram að sinna þessum málaflokki hér eftir sem hingað til, með þvi starfsfólki sem við höfum getað treyst fyrir verkinu fram að þessu? Er í raun einhver þörf á breytingu?
En ef að það er nauðsynlegt að færa reksturinn til annars aðila, þá hefði mér fundist að fyrsti kostur væri sá að fela HSS þennan rekstur í ljósi þess að HSS sinnir slíkum rekstri á svæðinu nú þegar og hefur gert í áratugi. Mér finnst einhvern veginn að í slíkum samrekstri ætti að felast augljóst hagræði þar sem að HSS er að sinna þjónustu við aldraða á ýmsum sviðum hér á svæðinu og það eitt ætti að styrkja málaflokkinn, hjúkrunarheimilið og einnig HSS sem ekki er vanþörf á að styrkja.
Ég las það einhvers staðar að HSS hefði sett fram ófrávíkjanleg skilyrði fyrir því að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilisins en þau skilyrði hafa ekki komið fram.
Flýtum okkur hægt
Ég tel í ljósi ofangreindra atriða að það sé rétt að flýta sér hægt í þessu máli. Hver sem niðurstaðan verður þá á hún að byggja á fleiru en krónum og aurum. Það þarf að taka tillit til svæðisins í heild og það þarf að styrkja þá þjónustu sem nú þegar er fyrir hendi og varðar þennan málaflokk.
Ég hef ekkert út á rekstur Hrafnistu að setja, en ég vil leyfa mér að spyrja hvort að við viljum breyta Suðurnesjum í útibúasamfélag þar sem hlutunum er stjórnað af öðrum en okkur sjálfum.
Guðbrandur Einarsson