Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Yfirlýsing vegna ummæla Hjördísar Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar
Föstudagur 29. október 2004 kl. 17:10

Yfirlýsing vegna ummæla Hjördísar Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar

Vegna ummæla Hjördísar Árnadóttur, félagsmálastjóra Reykjanesbæjar í Víkurfréttum fimmtudaginn 21. okt. sl. um barnaverndarsamstarf Sandgerðis, sv. Garðs, Vatnsleysustrandahrepps og Reykjanesbæjar, þar sem hún segir að Reykjanesbær hafi farið inn í samstarfið af heilum hug og úr þeim orðum megi lesa að slíkt hafi ekki verið raunin af hálfu hinna sveitarfélaganna, einnig að “þau (minni sveitarfélögin) eiga eftir að standa sig vel því þau hafa eflaust lært ýmislegt af samstarfinu (við Reykjanesbæ) sem þau munu búa að”,vill undirrituð að eftirfarandi komi fram: 

Af hálfu Sandgerðisbæjar var farið inn í samstarfið af heilum hug og með það að leiðarljósi að byggja upp markvisst og faglegt barnaverndarstarf á svæðinu. Gengið var út frá því að um raunverulegt samstarf jafnrétthárra sveitarfélaga væri að ræða. Undirrituð telur að það hafi ekki gengið eftir en ljóst er að ákveðnir hnökrar, bæði stjórnunarlegir og fjárhagslegir komu fram í samstarfinu.

Sandgerðisbær hefur rekið skipulagða félagsþjónustu og barnaverndarnefnd til margra ára og hefur verið lögð áhersla á að ráða fagmenntaða félagsráðgjafa til að sinna öllu barnaverndarstarfi sem og annarri félagslegri þjónustu. Það hefur tekist með góðum árangri. Einnig hafa til nefndarsetu valist fulltrúar sem hafa áratuga reynslu af vinnslu slíkra mála.

Því lít ég svo á að Sandgerðisbær hafi alla burði til að sinna barnaverndarstarfi af fagmennsku og alúð enda voru forsendur samstarfs við Reykjanesbæ ekki byggðar á skorti á faglegum forsendum né úrlausnum heldur byggðar á fjölda íbúa. Við breytingu á barnaverndarlögum árið 2002 varð íbúatala sveitarfélags að vera 1500 að lágmarki að baki barnarverndarnefnd. Því ákvað Sandgerðisbær að hefja samstarf við Reykjanesbæ til reynslu.

Undirrituð leggur ennfremur áherslu á að sérstaða barnaverndarmála er mikil sökum eðlis þeirra og tel því að ekki eigi að blanda þeim inn í umræður eða pólitískt dægurþras um sameiningarmál.

Að lokum þakka ég starfsmönnum og fulltrúum barnaverndarnefndar í Reykjanesbæ fyrir samstarfið og óska þeim velfarnaðar í starfi.


Virðingarfyllst,

Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
Formaður Félagsmálaráðs Sandgerðisbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024