Yfirlýsing vegna málefna Holtaskóla
Náðst hefur samkomulag um faglega úttekt á Eikinni, 18 barna einhverfudeild Holtaskóla og að í kjölfar hennar verði gert rekstrarmódel sem verði lagt til grundvallar við mat á fjárþörf deildarinnar. Auk þessara 18 barna eru 8 börn á einhverfurófinu í Holtaskóla án þess að þau teljist sérstakir skjólstæðingar Eikarinnar en njóta þó nauðsynlegrar þjónustu frá henni. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt 25 milljóna króna viðbótarfjárveitingu svo rekstur deildarinnar skerðist ekki þar til nýtt rekstrarmódel liggur fyrir. Þessi fjárveiting er til viðbótar við þær 30 milljónir sem deildinni hafði verið úthlutaðar.
Að teknu tilliti til þessa samkomulags hefur Jóhann Geirdal skólastjóri Holtaskóla dregið uppsögn sína frá 24. janúar til baka og mun hann því áfram gegna stöðu skólastjóra.
Í grein fræðslustjóra á DV.is í kjölfar uppsagnar Jóhanns þann 24. janúar sl. Kom meðal annars fram „Ef skóli fer yfir á fjárhagsáætlun ber að gera kröfu um að skólastjóri finni leiðir til að hagræða og reka skólann innan þess fjárhagsramma sem honum er úthlutað“. Auðvitað er þetta rétt sem almenn staðhæfing. Rétt er að einnig komi fram að ávallt hafa fylgt skýringar með umframkeyrslunni sem voru taldar gildar af fyrrverandi rekstrarstjóra skólanna í Reykjanesbæ sem starfaði til ársins 2011. Aðilar eru sammála um að fara sameiginlega yfir rekstur Holtaskóla til að tryggja að ekki verði aftur ágreiningur um rekstur skólans.
Á seinni árum hefur það aukist að nemendur sem þurfa á viðbótarþjónustu að halda fái skólavist í Holtaskóla eftir að fjárhagsáætlun hefur verið gerð. Ekki verður komist hjá því að kostnaður við rekstur skólans hækkar við komu slíkra barna enda koma þau í skólann til að fá þá þjónustu sem þau vegna sinna greininga þurfa á að halda. Undirritaðir munu á næstu vikum fara sameiginlega yfir verklag á móttöku þessara nemenda.
Hafi yfirlýsing fræðslustjóra frá 24. janúar og umræða fræðslustjóra á fundum með starfsmönnum annarra grunnskóla í Reykjanesbæ verið skilin á þá leið að um ásökun í garð Jóhanns og reksturs hans á skólanum hafi verið að ræða er rétt að það komi fram að það var ekki ætlunin. Hafi uppsagnarbréf Jóhanns og ummæli sem höfð voru eftir honum í fjölmiðlum sama dag og næstu daga verið skilin á þann hátt að Reykjanesbær hafi ætlað að brjóta á rétti barna með sérþarfir er rétt að taka fram að svo er alls ekki og það því á misskilningi byggt.
Í ljósi framanritaðs hörmum við að til þessarar deilu hafi komið og vonumst til að hún hafi sem minnstan skaða í för með sér fyrir skólastarf í Reykjanesbæ.
Jafnframt hvetjum við alla sem að skólastarfi koma í Reykjanesbæ sem eru kennarar og annað starfsfólk skólanna, nemendur og aðstandendur þeirra að til taka höndum saman um áframhaldandi uppbyggingu góðs skólastarfs eins og verið hefur undanfarin ár.
Virðingarfyllst,
Jóhann Geirdal
skólastjóri Holtaskóla í Reykjanesbæ
Gylfi Jón Gylfason
fræðslustjóri Reykjanesbæjar.