Yfirlýsing frá United Silicon
— um stöðu mála í Helguvík
Í ljósi frétta undanfarna daga hafa verið uppi vangaveltur og getgátur er varða kísilverið í Helguvík. Getgáturnar byggja ekki á réttum upplýsingum sem getur oft verið misvísandi og leitt til misskilnings, þess vegna er betra að upplýsa um staðreyndir, svo umræðan geti átt sér stað á faglegum nótum, og ekki byggt á sögusögnum andstæðinga iðnaðar hér á landi. Fyrirtækið United Silicon hefur staðið við að ræsa kísilmálmverksmiðju sína í Helguvík síðustu vikuna og vill núna upplýsa íbúa svæðisins um stöðu mála. Því telur fyrirtækið rétt að skýra stöðu mála betur núna og í framtíðinni svo íbúar Reykjanesbæjar geti betur fylgst með því hver staða mála sé út frá réttum upplýsingum.
Vorum að brenna eldivið
Áður en framleiðsla var sett í gang (þegar flestar kvartanir komu frá íbúum), var verið að hita ofn félagsins með eldivið, á meðan verið var að baka rafskaut ofnsins. Þetta er eins og að kveikja í risa báli, eins og gert er t.d. á gamlárskvöld, og er reykurinn frá því ekkert hættulegur, enda förum við flest hiklaust með börn okkar á áramótabrennu. Á meðan þetta var gert var reykhreinsivirki verksmiðjunar ekki notað, því reykur frá svona venjulegu báli getur eyðilagt pokasíurnar í reykhreinsivirkinu. Þess vegna getur verið að bæjarbúar hafi fundið reykjarlykt sem minnir á kamínueld af þessum sökum þessa daga.
Mælingar í Helguvík
Símælar eru reknir af óháðum aðilum frá Orkurannsóknum sem mæla loftgæði við jaðar Helguvíkursvæðisins. Hægt er að nálgast raunmælingar og gagnasöfn á slóðinni www.andvari.is. Rétt er benda á, að þeir sem vilja skoða raunmælingar á heimasíðunni kynni sér vel hvernig gögnin þar eru kynnt. Á forsíðu vefsíðunnar má í fljótu bragði gera sér grein fyrir loftgæðum á svæðinu. Til samanburðar er einnig hægt að fara á vef Umhverfisstofnunar og sjá loftgæði á öðrum stöðum á Íslandi (http://www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi/maelingar/). Hér að neðan má til dæmis sjá samanburð á skjáskoti með gögnum frá Grensásvegi í nóvember 2016 og í Helguvík á sama tíma.
Grensásvegur
Helguvík
Þegar gögn frá símælingu Orkurannsókna eru skoðuð kemur í ljós mikill toppur 9. nóvember. Þann dag var verið að kvarða mælitækin hjá Orkurannsóknum og var þá mæligasi dælt inn í þau beint til að tryggja að mælirinn væri rétt kvarðaður. Orkurannsóknir hafa verið beðin um að skrá inn á heimasíðuna, áður og eftir, að kvarðanir á mælum eru gerðar.
United Silicon hf. hvetur íbúa Reykjanesbæjar til þess að kynna sér þau gögn sem vísað er til hér að framan, og samkvæmt þeim hafa gildi mengunarefna í útblæstri verksmiðjunnar aldrei farið yfir viðmiðunarmörk. Þá er félagið tilbúið til þess að veita Reykjanesbæ og öðrum nærliggjandi sveitarfélögum allar upplýsingar varðandi útblástur frá verksmiðjunni á hverjum tíma.
Framleiðsla kominn í gang
Framleiðsla kísilmálms er nú hafin og allur reykur frá framleiðslunni hefur farið í gegnum reykhreinsivirkið. Aðalviftur verksmiðjunnar hafa orðið fyrir truflun vegna rangrar forritunar í stjórnkerfi viftanna, sem hefur valdið því að nokkur reykur barst frá sjálfu ofnhúsi verksmiðjunnar. Loftræstikerfi byggingarinnar höfðu slegið út síðla nætur og voru þau ekki sett inn nægjanlega snemma til að hreinsa reykinn sem lagði um og út frá byggingunni fram eftir morgni. Unnið er að endurbótum á loftræstikerfi byggingarinnar svo atvik sem þessi eigi sér ekki stað.
Með hækkandi álagi á ofninn hækkar hitinn inni í ofninum sem leiðir til fullkomnari bruna á timburflís sem þar með eyðir mest allri kamínubrunalyktinni. Gert er ráð fyrir að ofninn verður kominn í full afköst í lok mánaðarins.
United Silicon hvetur íbúa til að skoða vel síðu Orkurannsókna og mun fyrirtækið bæta úr þeim skorti á upplýsingum um rekstur félagsins til íbúa Reykjanesbæjar.
Við mengum öll
Félagið vill líka benda á, að engin sérstaklega hættuleg efni eru í sjáanlegu ryki frá verksmiðjunni. Þetta eru allt venjuleg steinefni eins og í kísilgrjóti, sem er algengasta steinefni í jarðskorpunni. Allir sem sópa stéttina heima hjá sér á heitum sumardegi, anda að sér sambærilegu ryki með sömu steinefnum.
Höfum hugfast að við öll mengum smávegis daglega. Þegar við keyrum í bílum okkar eða flugvélar taka á loft kemur bæði ryk, köfnunarefnisoxíð (NOx) og brennisteinsoxíð (SO2), sem eru náttúrulega óholl fyrir líkamann en í litlu magni ekkert sérstaklega hættuleg. Þess vegna eru lögsett viðmiðunarmörk fyrir þessi efni og eins og þegar er borið saman við loftgæðismælingar á Grensásvegi, er kísilverksmiðjan ekkert að menga meira en venjuleg umferð gerir á venjulegum degi.
Við notum flest bæði bíla og kísil á hverjum einasta degi og viljum hafa þessi gæði í lífi okkar. Flest notum við kísil að minnsta kosti fjórum sinnum á dag m.a. þegar við burstum tennurnar, þvoum okkur um hárið og þegar við ökum í vinnuna og við það slitna dekkin á bílunum okkar.
Auk þess ættu umhverfisáhugamenn einnig að hafa í huga að yfir helmingur af öllum kísli, sem framleiddur er hjá United Silicon, fer til viðskiptavina okkar sem nota kísilinn í framleiðslu á sólarrafhlöðum. Þetta er líklega hreinasti orkugjafi í heiminum og við ættum að vera stolt af því að þessi vara er framleidd með hreinni orku í Reykjanesbæ.
(Yfirlýsing frá United Silicon sem birtist í Víkurfréttum 24. nóvember 2016)