Yfirlýsing frá bæjarfulltrúum Sandgerðisbæjar
Vegna hins hörmulega atburðar sem varð í gær þegar vinaþjóð sá á eftir ungum sjóliða við skyldu- og björgunarstörf á strandstað í lögsögu Sandgerðisbæjar vill undirritaður koma á framfæri samúðarkveðjum til áhafnar Trintons og dönsku þjóðarinnar.
Um leið er rétt að það komi fram að björgunarsveitarmenn og þeir aðrir sem koma að björgun skipsins eru að vinna frábært starf við mjög erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir þetta er afar brýnt að bæjaryfirvöld sem og yfirvöld umhverfismála taki höndum saman um framvindu málsins, en miklu varðar að vel takist til með losun olíu úr skipinu í dag þar sem veðurhorfur næstu daga lofa ekki góðu.
Mikið er því í húfi að olían náist þar sem að ljóst er að erfitt verður að hreinsa fjörur ef olía nær að leka úr tönkum skipsins. Miklar væntingar eru því til þeirra sem nú vinna erfitt starf í kapp við tímann.
Umhverfisráð Sandgerðisbæjar mun meta aðstæður síðar í dag í ljósi stöðu mála.
Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri