Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Yfirlýsing frá Ásmundi Friðrikssyni
Fimmtudagur 7. júní 2012 kl. 00:21

Yfirlýsing frá Ásmundi Friðrikssyni

- vegna skrifa Sigurðar Jónssonar ritstjóra Reykjaness.

Sem bæjarstjóri í Garði tók ég þá ákvörðun að svara ekki persónulegu skítkasti Sigurðar Jónssonar ritstjóra fréttablaðsins Reykjaness í minn garð í öllum blöðum sem komið hafa út sl. 12 mánuði, eða frá upphafi útgáfu blaðsins. Nú er mál að linni og ég get ekki orða bundist lengur.


Frá því að ég varð bæjarstjóri í Garði 2009 hef ég tvisvar aðstoðað Sigurð Jónsson um að útvega honum vinnu við annan mann. Það gerði ég þrátt fyrir að SJ hafi í seinna skiptið verið orðinn leiður á biðinni og sent mér svívirðilegt hótunarbréf þar sem því var m.a. hótað að skrifa um mig niðrandi greinar. Þriðja skiptið sem ég útvegaði honum vinnu var þegar Ámundi Ámundason hringdi til mín og spurði mig hvort ég vissi um góðan ritstjóra fyrir blað sem hann hygðist gefa út á Suðurnesjum. Þá benti ég á Sigurð Jónsson og hann varð fyrir valinu. SJ hefur því staðið við hótanir sínar um skrif um mig og ég verð að viðurkenna að þakkirnar eru einkennilegar í því ljósi.


Sigurður Jónsson má hafa sýnar skoðanir í friði fyrir mér en það er rétt að sannleikurinn verði hafður að leiðarljósi þegar rýnt er í orð Sigurðar Jónssonar um mig og skólamálin í Garði sem hann hefur skrifað um sl. 12 mánuði. Þau skrif eru ekki í samræmi við orð Sigurðar Jónssonar í samtölum við mig.


Frá því að ég varð bæjarstjóri í Garði höfum við Sigurður Jónsson átt margt gott spjallið saman. Báðir Eyjamenn og þekktumst ágætlega úr starfi Sjálfstæðisflokksins í Eyjum. Hann vildi miðla nýliðanum á bæjarstjórastóli af reynslu sinni og var margt gott í því. Við ræddum mikið um skólamálin í Gerðaskóla og þar átti ég mikinn stuðningsmann í Sigurði Jónssyni.


SJ sagði mér frá raunarsögu í 16 ára bæjarstjóratíð sinni í samskiptum sínum við „liðið í skólanum“ svo notuð séu hans orð. Sama liðið og fékk vænan skammt í skýrslu um starfsemi Gerðaskóla nú fyrir skömmu. SJ sagði mér að hann hafi ekkert komist áfram með málin í skólanum og nú væri mál að linni og hvatti hann mig óspart í mörgum samtölum okkar að taka til hendinni. Skólanum hafi of lengi verið stjórnað af fólki sem hvorki væri til þess kosið eða ráðið og árangurinn væri fyrir neðan allar hellur.


Þegar N-listinn hafi tekið við 2006 þá hafi bæjarpólitíkin í skólanum byrjaði að grafa um sig í Garðinum. Á því tímabili 2006-2010 fór mælanlegur árangur í skólastarfinu úr því að vera sá besti á Suðurnesjum í að verða sá lakasti. Árangur í íslensku í 10. bekk á Pisaprófum var í þriðja neðsta sæti af 180 grunnskólum á sama tímabili.


Þetta var það helsta sem okkar fór í milli í umræðum um skólamál og naut ég stuðning Sigurðar Jónssonar og hvatningu til að láta verkin tala í skólamálunum eins og listi sjálfstæðismanna í Garði hafði lofað í síðustu kosningum og vann stórsigur útá.


Frá því að fyrsta blaðið af Reykjanesi kom út hefur SJ aftur á móti snúið umræðunni allri á hvolf og gagnrýnt mig og meirihluta sjálfstæðismanna í öllum málum bæjarfélagsins og þá sérstaklega skólamálunum. Blaðið hefur verið eins og persónulegt málgagn Sigurðar Jónssonar til að níðast á mér fyrir það sem hann hafði sjálfur lagt mér gott eitt til um og til að gera upp málin við gamla andstæðinga úr pólitíkinni í Garði frá því á árunum 1990-2006.


Í mínum huga dæmir málflutningur Sigurðar Jónssonar sig sjálfur, enda settur fram af andstyggð. Hann mun áfram ata mig með persónulegu skítkasti, en það er hans val. Ég mun ekki svara þeim skrifum eða elta ólar við Sigurð Jónsson eða Reykása hans líka.


Ásmundur Friðriksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024