Yfirlýsing að gefnu tilefni
Við, undirrituð, sem skipuðum meirihluta skólanefndar Sveitarfélagsins Garðs á árunum 2006-2010 finnum okkur knúin til að gefa eftirfarandi yfirlýsingu í kjölfar viðtals við bæjarstjóra Garðs sem birtist í Víkurfréttum 13. október síðastliðinn:
Skólastefna Sveitarfélagsins Garðs var samþykkt í bæjarstjórn 6. febrúar 2008. Gerð skólastefnunnar hófst á skólaþingi sem skólanefnd stóð fyrir með íbúum bæjarins í apríl 2007. Þar voru settir af stað fjórir starfshópar um grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og æskulýðsstarf. Hóparnir unnu áfram við gerð stefnunnar á nokkrum fundum til viðbótar og að lokum var stefnan send til skólanna og æskulýðsnefndar til yfirferðar og athugasemda. Þannig var skólastefna Sveitarfélagsins Garðs sett með íbúum Garðs, starfsfólki skólanna og fagnefndum bæjarins.
Samhliða gerð skólastefnunnar lagði skólanefnd til haustið 2007 að sérfræðingar frá Kennaraháskólanum yrðu fengnir til að meta allt skóla- og æskulýðsstarf í bænum. Með því móti væri varpað ljósi á stöðuna í málaflokknum þegar lagt væri af stað og stefnan tekin í skóla- og æskulýðsmálum bæjarins.
Haustið 2008 kynntu matsmennirnir skýrslu sína um matið fyrir skólanefnd, æskulýðsnefnd, skólastjórum, forstöðumanni félagsmiðstöðvar, bæjarfulltrúum og fulltrúum foreldra. Í skýrslunni voru dregnar fram fjölmargar sterkar hliðar skóla- og æskulýðsstarfsins en einnig það sem betur mætti fara.
Nýráðinn skólastjóri Gerðaskóla hóf strax handa við úrvinnslu og gerð umbótaáætlana byggðum á niðurstöðum matsins ásamt öðrum stjórnendum skólans og starfsfólki. Í desember 2008 kynnti skólastjórinn áætlun um viðbrögð við ábendingum og umbótatillögum fyrir skólanefnd. Kynnt var vel skipulögð og tímasett áætlun til úrbóta í átta liðum um hvernig bæta mætti starfsanda og efla liðsheild, vinna að auknu samstarfi við foreldra, bættum skólabrag, vinna gegn einelti, að fjölbreytni í kennsluháttum, stjórnun, jákvæðu viðhorfi nemenda til náms og hvetjandi námsaðstöðu.
Skólanefnd fylgdist með umbótastarfinu og á fundum nefndarinnar greindi skólastjóri reglulega frá framgangi þess. Á fundi skólanefndar í janúar 2010 var síðast farið yfir umbætur vegna ábendinga í skýrslu um mat á skólastarfi. Þar mælti skólanefnd með því að sérfræðingateymið sem sá um mat á skólastarfi yrði fengið til að leggja foreldrakönnunina fyrir að nýju. Ætlunin var að fá samanburð við fyrri mælingar þannig að meta mætti árangur umbótastarfsins. Af þeirri könnun varð ekki en sjálfsmatskannanir skólans voru gerðar og niðurstöður þeirra greindar. Ný bæjarstjórn og skólanefnd tók við að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 og sá meirihluti hefur því miður ekki fylgt eftir því umbótastarfi sem unnið var á árunum 2006-2010.
Í ljósi þess starfs sem greint er frá í yfirlýsingu þessari hlýtur það að sæta undrun að bæjarstjórinn í Garði fullyrði í fjölmiðlum að ekkert hafi verið unnið með skýrslu um mat á skólastarfi frá árinu 2008. Lesendur geta kynnt sér sjálfir sannindi þess málflutnings með því að lesa fundargerðir skólanefndar frá síðasta kjörtímabili á slóðinni www.svgardur.is.
Við undirrituð teljum að það hljóti að vera einsdæmi í stjórnun sveitarfélaga að æðsti yfirmaður ráðist að einni mikilvægustu stofnun bæjarins í fjölmiðlum líkt og bæjarstjórinn í Garði gerði með viðtali sem birtist í Víkurfréttum 13. október og á vefnum vf.is í kjölfarið. Slík aðför að starfsfólki grunnskólans okkar er óskiljanleg. Grunnskóli hvers byggðarlags er sú stofnun sem er mikilvægust fyrir góð búsetuskilyrði. Það á að vera forgangsatriði að búa börnum bestu skilyrði til náms og þroska. Slík skilyrði verða ekki bætt með neikvæðri umræðu um skólastarf fyrr og nú, heldur með því að styðja stjórnendur og starfsfólk skólanna til góðra verka og áframhaldandi umbótastarfs. Umbótastarf í góðum skóla tekur aldrei enda.
Agnes Ásta Woodhead
Ásbjörn Jónsson
Oddný G. Harðardóttir