Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

YFIRLÝSING
Fimmtudagur 14. maí 2015 kl. 16:45

YFIRLÝSING

Vegna fréttaflutnings af dómi Hæstaréttar í máli nr. 53/2015 frá 13. maí sl. vill lögmaður Landsnets hf. í málinu, Þórður Bogason hrl., Lögmönnum Höfðabakka, koma eftirfarandi á framfæri:

Hæstiréttur felldi úr gildi, með dómi frá 13. maí 2015, fimm úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta sem heimiluðu Landsneti hf. umráðatöku afmarkaðs svæðis innan Sveitarfélagsins Voga vegna byggingar og reksturs Suðurnesjalínu 2, án þess að matsnefndin hefði lokið matsferlinu með úrskurði um fjárhæð eignarnámsbóta. Málið varðar hins vegar ekki ákvarðanir iðnaðarráðherra um eignarnám frá 24. febrúar 2014, eins og ráða má af fréttum fjölmiðla.

Landsnet óskaði eftir þessari umráðatöku á síðasta ári þegar áætlað var að framkvæmdir gætu hafist. Matsnefnd eignarnámsbóta hefur í sínum störfum alla jafna veitt umráðatöku vegna stórra framkvæmda, s.s. lagningu háspennulína eða vegaframkvæmda, án þess að matsferli sé lokið. Þessi heimild er í 14. gr. laga um framkvæmda eignarnáms, nr. 11/1973.

Héraðsdómur hafnaði kröfum landeigenda um að undanþáguheimild til umráðatöku yrði felld úr gildi. Í dómi sínum snýr Hæstiréttur þeirri niðurstöðu við og fellir úr gildi heimild til umráðatöku áður en mat á bótum hefur farið fram. Sú niðurstaða vekur vonbrigði og er í raun ekki í samræmi við venjur í störfum matsnefndarinnar. Eigi að síður ber að líta til þess að þetta mun vera í fyrsta sinn sem reynir á túlkun 14. gr. laga um framkvæmd eignarnáms fyrir dómi og því gefur hæstaréttardómurinn mikilvægar vísbendingar til framtíðar um beitingu ákvæðisins af hálfu matsnefndarinnar. Dómurinn útilokar hins vegar ekki að af hálfu Landsnet verði óskað að nýju umráðatöku þótt málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta sé ekki lokið.

Til þess þarf þó ekki að koma því matsnefnd eignarnámsbóta hefur ákveðið að málflutningur um fjárhæð eignarnámsbóta fari fram hinn 2. júní nk. Í kjölfar þess verður kveðinn upp úrskurður um bæturnar sem felur í sér heimild að lögum til umráðatöku.

Hafa landeigendur þeir sem standa í málaferlum gegn Landsneti vegna Suðurnesjalínu 2 skilað sínum greinargerðum og sjónarmiðum til matsnefndar eignarnámsbóta um fjárhæð bóta. Samanlagðar kröfur allra þessara landeigenda nema rúmlega 38,5 milljörðum króna. Til samanburðar má nefna að áætlaður framkvæmdakostnaður er 2,7 milljarðar fyrir línuna alla. Óhætt er að segja að framangreindar kröfur landeigenda séu með öllu óraunhæfar.

Þórður Bogason hrl.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024