Yfir sex þúsund bein störf á Keflavíkurflugvelli 2016
Rúmlega sex þúsund bein störf voru á Keflavíkurflugvelli á árinu 2016 en tæplega helmingur þeirra eru störf hjá flugfélögum, flugmenn, flugfreyjur og annað. Næst stærsti hópurinn eru starfsmenn fyrirtækja sem þjónusta flugvélar eins og t.d. við farangursþjónustu. Þeir voru 1.900 samtals á árinu 2016.
Starfsmenn Isavia eru þriðji stærsti hópurinn á Keflavíkurflugvelli eða 780 manns. Rétt tæp 700 störfuðu við verslun, á veitingastöðum eða í bönkum í flugstöðinni, 221 starfaði við rútuakstur, flutninga eða bílaleigu,119 hjá Tollgæslunni, lögreglunni eða í þjónustu við fatlaða, samtals 6.355 manns.
Guðný María Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Isavia, sagði í kynningu á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um sl. helgi að áfram yrði mikil aukning starfa á Keflavíkurflugvelli, nærri 900 störf að meðaltali til ársins 2020 en síðan um 455 störf að meðaltali árlega til ársins 2040. Farþegaspá til næstu tveggja áratuga sýnir áframhaldandi vöxt í fjölda ferðamanna til Íslands. Aukningin í fjölda ferðamanna hefur verið 21% að meðaltali á ári frá 2010, samtals um 230% á milli áranna 2010 og 2016. Miðað við um nærri 900 ný störf á þessu ári má gera ráð fyrir að rúmlega 7 þúsund manns hafi starfað á Keflavíkurflugvelli í sumar.
„Það er ljóst að miklar áskoranir eru enn framundan á Keflavíkurflugvelli. Það verður mikil þörf á vinnuafli til að mæta miklum vexti á sama tíma og þensla er í hagkerfinu og mannaflaþörf er í atvinnulífinu,“ sagði Guðný og benti á að nauðsynlegt væri að tryggja innviði til að bjóða fólk velkomið inn í íslenskt samfélag. Hún sagði að rík áhersla væri lögð á umhverfismál í þessari miklu uppbyggingu á flugvellinum, m.a. í umhverfisstjórnunarkerfi, hljóðvist og loftgæðum, grunnvatns- og jarðvegsgæðum, úrgangsmálum og loftslagsbreytingum.