Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • XS – Breytum bænum saman
  • XS – Breytum bænum saman
Föstudagur 30. maí 2014 kl. 11:00

XS – Breytum bænum saman

Eysteinn Eyjólfsson skrifar.

Það er breytingarandi yfir bænum okkar þessa dagana, bæjarbúar kalla á nýjar áherslur við stjórn bæjarins. Við á S-listanum höfum einbeitt okkur að því að kynna okkar flotta og fjölbreytta frambjóðendahóp, bankað upp á hjá bæjarbúum og kynnt nýja sýn og breyttar áherslur fyrir bæinn og boðið bæjarbúum þjónandi forystu.

Allt uppi á borði hjá S-listanum
Við munum stjórna bænum okkar á opnari og ábyrgari hátt en nú er gert og tryggja að íbúar Reykjanesbæjar séu upplýstir um stöðu bæjarsjóðs og um tengsl og hagsmuni kjörinna fulltrúa. Við göngum undan með góðu fordæmi og höfum birt upplýsingar um hagsmuni og tengsl okkar frambjóðenda – ein allra framboða – á xsreykjanesbaer.is en þar má líka finna myndbönd með frambjóðendum og allar upplýsingar.

Við munum móta samfélag með bæjarbúum grundvallað á virðingu, jöfnuði, lýðræði, ábyrgð og gegnsæi með fjölskylduna í fyrirrúmi og standa vörð um grundavallarstoðir eins og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og berjast hart gegn einkavæðingarhugmyndum.

Sameinumst og breytum!
Ef núverandi meirihluti bæjarstjórnar fellur eins og flest bendir til þá eru það mjög skýr skilaboð frá bæjarbúum um breytingar og því skylda okkar að ná samstöðu um stjórn bæjarins og ég hef fulla trú á að það takist.  

Ný bæjarstjórn mun svo auglýsa eftir bæjarstjóra og ráða hæfan einstakling til verksins sem framfylgi stefnunni sem bæjarfulltrúar, kjörnir af íbúum bæjarins móta. Kosningarnar 31. maí eru bæjarstjórnarkosningar þar sem kosið er um nýjar og breyttar áherslur við stjórn bæjarins – kosningarnar snúast ekki um einstök embætti.

Til þjónustu reiðubúinn!
Ég hlakka til að vinna í stórum og fjölbreyttum hópi að því að breyta áherslum og bæta bæinn okkar, búa til samfélag þar sem öllum bjóðast jöfn tækifæri. Hópi þar sem fjölbreyttar raddir hljóma og hópi sem hrindir spennandi hugmyndum í framkvæmd. Hópi sem sameinast um að reka bæinn okkar af ábyrgð, nýta tækifærin af skynsemi og skila honum betri til barna okkar.

Ég er í baráttusæti S-listans samkvæmt skoðanakönnunum, kominn með fjögurra ára reynslu í bæjarstjórn, brimafullur af metnaði fyrir hönd bæjarins okkar og til þjónustu reiðubúinn.

X við S á kjördag er atkvæði greitt breyttum áherslum, nýrri sýn og betri bæ.

Eysteinn Eyjólfsson
3. sæti á S-lista Samfylkingarinnar eða óháðra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024