Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

X við B á morgun
Föstudagur 26. apríl 2013 kl. 14:36

X við B á morgun

Krafan um breytingar í samfélaginu er hávær og hefur alltaf verið. Þannig hefur maðurinn þróað samfélag sitt til hins betra með ýmsum feilsporum og lært af mistökum sínum. En hvernig breytum við samfélaginu til hins betra nema ræða okkur niður á skynsamlegustu leiðina sem allra flestir geta sætt sig við? Í því hraðadýrkandi samfélagi sem við lifum í þurfum við í fyrsta lagi að átta okkur á að skyndilausnir til skamms tíma hafa ekki varanleg áhrif. Þess vegna þurfum við að hugsa lengra, til þess sem hefur áhrif á samfélagið til hins betra.

Hvert og eitt okkar vill alltaf gera gott samfélag betra. Þess vegna tekur fólk þátt í stjórnmálastarfi til að ná fram umbótum og hafa áhrif. Stefna Framsóknarflokksins er róttæk miðjustefna með rökhugsun og skynsemi að leiðarljósi þar sem öfgum til hægri og vinstri er hafnað.

Við Framsóknarmenn trúum því nefnilega að í hverri áskorun felist tækifæri. Við trúum því að raunverulega sé hægt að ráðast til atlögu við vogunarsjóði og aðra kröfueigendur með málstað réttlætisins að vopni. Við trúum því að réttlætið muni hafa sigur!

Um þrettán þúsund manns eru félagar í flokknum. Þessir félagar eiga það sammerkt að vilja vinna að því að hafa áhrif á þjóðfélagsskipan á Íslandi samkvæmt hugsjónum flokksins og þeim markmiðum sem skilgreind eru í grundvallarstefnuskrá hans. Framsóknarflokkurinn er því grasrótarhreyfing þar sem hver og einn getur lagt sitt af mörkum til að móta stefnumál flokksins, kjósa forystu hans og hafa þannig áhrif á störf hans og stefnu.

Í raun stendur valið á morgun kjördag um tvennt. Eftir kosningar tekur við framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Það ræðst af þeim stuðningi sem Framsókn fær í kosningunum og þeirri samningsstöðu sem niðurstaða kosninganna skapar. Miðað við málflutning forystumanna annarra flokka um áherslur Framsóknar hljótum við að gera ráð fyrir að þeir muni vilja mynda ríkisstjórn gegn tillögunum ef þeir fá tækifæri til. Fái þeir það tækifæri glatast hið einstaka tækifæri heimilanna. Því skora ég á þig lesandi góður að setja X við B lista Framsóknar.

Með bestu kveðjum

Kristinn Þór Jakobsson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024