Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

WOW air hættir starfsemi
Fimmtudagur 28. mars 2019 kl. 21:30

WOW air hættir starfsemi

- Bæjarstjóri Suðurnesjabæjar skrifar

Í upphafi dags í dag lá fyrir að flugfélagið WOW Air væri hætt starfsemi.  Afleiðingar þess eru að miklu leyti óljósar ennþá, en hins vegar er ljóst að áhrifa þessa muni gæta víða í þjóðfélaginu og hafa áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.  Suðurnesjabær harmar þá niðurstöðu að WOW air hafi hætt starfsemi.
 
Þótt svo ekki liggi fyrir hver verða bein áhrif á Suðurnesjabæ og íbúa sveitarfélagsins, þá má reikna með að þau verði nokkur.  Auk þess að allt starfsfólk WOW air hafi misst sín störf, hefur komið fram að einstök fyrirtæki sem hafa veitt flugfélaginu beina og óbeina þjónustu þurfa að draga saman starfsemi sína og því munu væntanlega fylgja uppsagnir starfsfólks.
 
Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjölmörg þjónustufyrirtæki á flugstöðvarsvæðinu eru staðsett í Suðurnesjabæ.  Fjöldi íbúa sveitarfélagsins starfar hjá þeim fyrirtækjum sem þar hafa starfsemi, en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig atburðir dagsins munu koma við það fólk. Þá má reikna með að áhrif verði á starfsemi annarra ferðaþjónustufyrirtækja, án þess að upplýsingar um það liggi fyrir.
 
Suðurnesjabær fylgist náið með framvindu mála og aflar upplýsinga um hvernig þessir atburðir koma við sveitarfélagið og íbúa þess.  Undirritaður, ásamt forystumönnum bæjarstjórnar og bæjarráðs hafa verið í samskiptum við ýmsa aðila sem málum tengjast, m.a. til að meta aðstæður og leggja á ráðin um viðbrögð.   Stjórnendahópur Suðurnesjabæjar hefur fundað um málið og undirbýr viðbrögð og aðgerðir eftir því sem þörf verður á, m.a. út frá upplýsingum sem munu berast á næstu dögum.
 
Suðurnesjabær beinir því til allra hlutaðeigandi að hugað sé að velferð og hagsmunum allra þeirra sem stöðvun starfsemi WOW air hefur áhrif á, hvort sem um er að ræða starfsfólk og fjölskyldur þeirra eða fyrirtæki.
 
Magnús Stefánsson
Bæjarstjóri Suðurnesjabæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024