Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 „We ain’t seen nothing yet“
Þriðjudagur 5. janúar 2010 kl. 20:08

„We ain’t seen nothing yet“

Í morgun ákvað forseti lýðveldisins að vísa Icesavemálinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mál er eins og kunnugt er ein lykilforsenda þess að unnt sé að reisa þjóðina úr þeim efnahagshörmungum sem útrásarvíkingarnir komu þjóðinni í. Með ákvörðun sinni gefur forsetinn lögmætri og lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn í landinu langt nef. Enginn efast um vald forseta til að neita að undirrita lög. En slíkt vald verður að fara með af yfirvegun og ábyrgð. Það er hvorki stjórnskipan á Íslandi né í anda þingræðis að forsetinn fari með framkvæmdavaldið og vandséð er hvernig unnt er að stjórna landinu ef ríkisstjórn á það undir geðþótta forsetans að grípa inn í atburðarás að sínum hentugleikum. Þá væri rétt að afnema þingræðið og breyta stjórnarskránni í þá veru að forsetinn skipaði ríkisstjórn eins og í Frakklandi eða Bandaríkjunum og ætti það við þjóðina en ekki þingið hvernig með er farið. En við erum hvorki stödd í Frakklandi né annars staðar og þótt forsetinn fari víða ætti honum að vera ljóst hvar hann er staddur og hvert valdsvið hans nær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ekki skal ég leggja mat á það hver niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni en hitt er morgunljóst að lausn þessa máls er afar mikilvægt skref til að endurvinna traust alþjóðasamfélagsins sem er í molum eftir efnahagshrunið. Allt of miklar tafir hafa orðið vegna pólitísks málþófs og nú leggur forsetinn sjálfur stein í götu málsins. Því verðum við nauðug að taka eins og hverju öðru hundsbiti. Nú er það okkar, sem viljum afgreiða Icesave, að sannfæra þjóðina um að endurreisn atvinnulífsins sé mál málanna og að Icesave-samningurinn sé lykill að þeirri endurreisn, annað kalli á gjaldeyrshöft, atvinnuleysi og almenna fátækt til lengri tíma.


Icesave-samkomulagið sem gert var við Breta og Hollendinga hefur nú þegar orðið til þess að bæta samskipti Íslands við önnur ríki, alþjóðastofnanir og fjárfesta. Aðstæður voru fram að ákvörðun forseta metnar þannig að senn væri tímabært fyrir stjórnvöld að leggja af stað í átak þar sem jákvæð þróun efnahagsmála yrði kynnt fyrir öðrum þjóðum. Þetta er nú í uppnámi. Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar. En hver er ástæðan? Hann nefnir sjálfur virðingu sína fyrir lýðræðinu. Ólafur Ragnar hefur getið sér orð fyrir að vera sérlegur erindreki útrásarvíkinga og þess hégómleika sem leitt hefur þjóðina í ógöngur. Sem slíkur er hann skotspónn grínara og margir vilja að hann axli ábyrgð með að segja af sér. Ekki er þess vegna svo fráleitt að ætla að forsetanum gangi það helst til, með ákvörðun sinni, að endurreisa glatað traust á sinni prívatpersónu meðal alþýðunnar. Fólkið í landinu hefur vitaskuld engan áhuga á að borga skuldir óreiðumanna og lætur tilfinningar ráða afstöðu sinni til Icesave frekar en skynsemi og yfirvegun. Efnahagshrunið á Íslandi hefur kristallast í Icesave-málinu og reiði almenningsins þess vegna einkum beinst að því máli. Aðrar skuldir eins og t.d. vegna gjaldþrots Seðlabankans hafa ekki fengið hliðstæða umræðu. Með ákvörðun sinni í dag leiðir forsetinn þjóðina áfram í þeirri ranghugsun að samningurinn við Breta og Hollendinga sé megin banabiti þjóðarinnar. Að forsetinn spili á slíkar tilfinningar er populismi eða lýðskrum af vestu sort. A.m.k. er það ekki dæmi um stjórnvisku.


Verkalýðshreyfingin og reyndar allir aðilar Stöðugleikasáttmálans hafa lagt á það ríka áherslu að Icesave-málið verði leitt til lykta sem fyrst enda muni allar tafir fresta verulega uppbyggingu atvinnulífsins, ekki síst hér á Suðurnesjum, og hafa auk þess alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heimilin. Með athöfn sinni á Bessastöðum tekur fosetinn sér framkvæmdavaldið í hendur. Væri ekki réttast að hann axlaði ábyrgð á þeirri ákvöðrun áfram með utanþingsstjórn sem hann skipaði að eigin geðþótta til að klára málið? Til þess þarf ríkisstjórnin að gefa honum svigrúm. We aint seen nothing yet!


Skúli Thoroddsen, lögfræðingur