Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vottar Jehóva halda mót í Stapa
Þriðjudagur 10. nóvember 2015 kl. 06:00

Vottar Jehóva halda mót í Stapa

Sunnudaginn 15. nóvember halda Vottar Jehóva á Íslandi mót í samkomuhúsinu Stapa í Reykjanesbæ.

Vottar Jehóva halda mót þrisvar á ári, eitt sem stendur í þrjá daga og tvö sem taka einn dag og er þetta annað þeirra. Undanfarin ár hafa mót þessi verið haldin í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi en af sérstökum ástæðum fer mótshaldið fram í Stapa að þessu sinni.

Íbúar Reykjanesbæjar eru boðnir velkomnir til mótsins næstkomandi sunnudag. Stef mótsins er: „Líkið eftir trú þeirra.“  Mótsstefin eru ávallt byggð á biblíulegum grunni og stef þessa móts vísar til orðanna í 7. versi 13. kafla Hebreabréfsins.
 
Dagskráin hefst klukkan 09:40 og lýkur klukkan 16:00 en hádegishlé er frá 12:10 til 13:20. Rætt verður um hvernig ungir sem aldnir geta líkt eftir trú trúfastra þjóna Guðs til forna og verið sjálf til fyrirmyndar.

Aðalræðumaður mótsins verður gestur frá deildarskrifstofu Votta Jehóva í Holbæk í Danmörku en sú skrifstofa hefur frá árinu 2012 haft umsjón með starfi trúfélagins á Norðurlöndum að Finnlandi undanskildu. Flytur hann eina ræðu fyrir hádegi og lokaræðuna síðdegis. Hann talar á ensku en orð hans verða jafnóðum þýdd á íslensku.

Nánari upplýsingar um mót Votta Jehóva er að finna á heimasíðu þeirra www.jw.org/is og þar á meðal heiti allra dagskrárliða þessa móts. Einnig má þar skoða myndskeið af mótum í öðrum löndum. Mót með sömu dagskrá og verður flutt í Stapa eru haldin um allan heim. Vottar Jehóva, hvar sem þeir búa á jörðinni, njóta sömu andlegu fæðunnar frá orði Guðs á um það bil sama tíma alls staðar og er það ein veigamikil ástæða þess hve mikil eining ríkir á meðal þeirra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024