Vorið í vændum
Ég geri ráð fyrir því að þú lesandi góður hafir veitt eftirtekt hve dag er tekið að lengja. Lengingin virðist vera í annan endann því enn er morgunsólarinnar saknað en að sama skapi töluvert eftir af dagskímu þá heim er haldið úr vinnu. Þá daga er sér til sólar er eftirtektarvert hve björt hún er, svona skærgul og upplífgandi. Það er andstætt haustsólinni sem er öllu rauðari þá hún sífellt lækkar á lofti.“Hvað boðar nýárs blessuð sól“. Í minningunni er sú birta sem nýársdagssólin boðar sérdeilis heillandi. Angurværð áramótanna víkur fyrir nýjum eftirvæntingum, nýjum boðskap, nýjum heitum, nýjum verkefnum. Sunnlendingar hafa upplifað einstaka veðurblíðu þennan veturinn á meðan veðuröflin hafa stundum verið óblíð annars staðar á landinu. Kostnaður við snjómokstur er því mis dreifður á landshluta og því umhugsunarvert hvort ekki þyrfti að koma til einhvers konar jöfnunarsjóður snjóruðnings til að jafna þann kostnað sem sveitarfélögin bera, en það er nú önnur saga. Ég sakna þess reyndar eftir svo snjóléttan vetur að sjá varla snjótittling á svæðinu, enda eru þeir við veisluborð þeirra Landbrotsbænda, þar sem nóg er af korni á ökrum.Það er einstakt að geta enn sett niður svokallaða haustlauka þar eð jörð er ófrosin, mjúk og rök. Eins og oft áður hefur ritari nýtt sér þessa möguleika og er enn að grafa niður lauka sem annars yrði fleygt á hauga. Krókusar og páskaliljur sóma sér vel í grasflötinni og passar að þegar blómgunin er yfir staðin er kominn tími á að slá grasið í fyrsta sinn. Ef frost er í jörðu er auðvelt að stinga laukum niður í potta eða kassa, geyma úti og láta koma upp. Það þarf ekki merkilegan jarðveg í pottana til að laukar vaxi upp. Þeir geyma sína eigin orku. Á vorin þegar jörð er ófrosin má svo stinga þeim niður á staði sem hentar í garðinum. Afraksturinn er blómabreiður snemmsumars með allri þeirri litardýrð sem þeir skapa. Það hentar vel að taka upp laukana um leið og sumarblómum er komið fyrir. Það launar sig sjaldan að geyma túlípanalauka milli ára, því blómgunin næsta ár veldur vonbrigðum. Aðrar tegundir lauka er vert að geyma í jörðu, enda blómstra þeir ár eftir ár.
En nú skal fara að huga að vorverkum. Það er þegar kominn tími á að forrækta sum sumarblóm, eins og stjúpur, tóbakshorn,og brúðarauga, svo nokkuð sé nefnd. Mitt uppáhaldsblóm er dalían,sem er auðveld í ræktun og ótrúlega falleg með öllum sínum breytileika. Fyrir dalíu sái ég í lok febrúar í safnbakka. Eftir u.þ.b. 2 vikur má síðan potta, gjarnan í eins lítra potta. Til að koma í veg fyrir að hún spíri mikið þá er góð regla að klípa af ystu blöðin regluleg á meðan vexti stendur. Við það þéttist hver planta og styrkist. Þegar góðri plöntu er náð fær hún síðan frið til að mynda blómknúppa. Góður bjartur gluggi í húsinu gefur möguleika á forræktun. Það er auðvitað ætíð viss hætta á að plönturnar verði veiklulegar ef ljóss nýtur ekki við. Því er viturlegt að fjárfesta í blómaljósi án verulegs kostnaðar til að ná betri árangri.
Við ætlum að hefja dagskrá ár okkar að þessu sinni með að fá til okkar til okkar Kristinn H. Þorsteinsson fræðslu og verkefnastjóra Garðyrkjufélags Íslands til að flytja erindi sem hann nefnir „Rót vandans“. Hann mun þar fjalla um nokkra helstu lykilþætti í ræktun, til að mynda jarðveg og jarðvegsgerð og þær kröfur sem plöntur gera til jarðvegs. Þá verður kennt hvernig á að bera sig að við upptöku trjágróðurs til flutnings, gróðursetningar og áburðargjöf.
Jarðvegsgerð er ekki síður mikilvægur þáttur ræktunar og veðráttan sem við búum við. Að endurskapa frjósaman jarðveg úr þeim oft á tíðum snauða efnivið sem við búum að er heilmikil ögrun. Flestir gerða sér lífið auðvelt með að kaupa sér mold sem aðrir hafa framleitt. Oftast er slíkur jarðvegur einsleitur og sami jarðvegur hentar kannski ekki öllum plöntum. Erlendar gróðurstöðvar bjóða upp á meiri fjölbreytni enda jarðvegsgerð mikilvægur iðnaður og söluvara. Við Íslendingar eigum enn ekki handbærar leiðbeiningar um hvernig staðbundnum jarðvegi er breytt í annan og betri. Garðyrkjubændur búa sér hver og einn eigin uppskrift sem gjarnan liggur ekki á lausu. Það væri verðugt verkefni fyrir fræðimenn að búa til handbók líkt og góða mataruppskriftabók, þar sem sauðsvartur áhugamaðurinn getur sótt sér uppskrift fyrir eigin ræktun. Almennt má segja að safnhaugurinn þar sem heimilisúrgangi úr jurtaríki ásamt því sem til fellur í garðinum er breytt í verðmæti sé lykilatriðið. Til marks upp velheppnaða jarðvegsgerð er örflóran sem gjarnan fylgir. Það er tilhlökkunarefni að heyra hvernig fagmaðurinn tekur á efninu og áreiðanlega hvatning fyrir þá sem þegar eru farnir að hlúa að vorin.
Fyrirlesturinn verður haldinn í Húsinu okkar við Hringbraut (Gamla K- Húsið) þann 18. Febrúar kl. 20.
Aðgangseyrir er 500kr. fyrir félagsmenn Garðyrkjufélags Íslands, 1000 kr. fyrir aðra. Léttar veitingar frambornar í fundarhléi.
Konráð Lúðvíksson,
formaður Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands