Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Fimmtudagur 8. maí 2003 kl. 10:20

Vöndum valið - Suðurnesjamenn

Á laugardag veljum við á ný forystu í landsmálum til næstu fjögurra ára. Óvenju miklar breytingar hafa orðið frá síðustu kosningum og langt síðan að jafnt mjótt hefur verið á munum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hvert einasta atkvæði skiptir því miklu máli.Á að skerða lífeyrisréttindin
Aldrei fyrr hefur stjórnarandstaðan komið fram með jafn óvægnar og ósanngjarnar tillögur gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum landsins eins og nú. Á það við um Frjálslynda flokkinn, Samfylkinguna og Vinstri-græna. Fyrningarleið veiðiheimilda er eignaupptaka hins opinbera sem setja mun fjölda fyrirtækja á vonarvöl og um leið skapa ótrúlega óvissu og ójafnvægi í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Á ársfundi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum kom fram hjá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte & touche hf. að aðeins örfá ár munu líða þar til fyrirtækið verður gjaldþrota ef fyrningarleiðin verður farin. Jafnframt kom fram í sömu skýrslu að hlutabréf fyrirtækisins yrðu verðlaus á fyrsta degi ef stjórnarandstaðan kemst að. Hið sama á við um mjög mörg sambærileg fyrirtæki innan greinarinnar. Rétt er að benda á að lífeyrissjóðirnir okkar hafa á undanförnum árum fjárfest verulega í þessum fyrirtækjum. Komist stjórnarandstaðan til valda erum við að grafa undan okkar eigin lífeyrissjóðum og okkar eigin velferð á komandi árum.

Hendum ekki atkvæðinu
Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn komi sterkur út úr kosningum. Eitt atkvæði getur ráðið úrslitum hvaða einstaklingar fari á þing og einn þingmaður getur ráðið úrslitum hvaða flokkar verða við völd næstu fjögur árin. Nokkrar skoðanakannanir síðustu daga hafa sýnt að 3-4% atkvæða í Suðurkjördæmi muni lenda hjá T-lista Kristjáns Pálssonar. Ég hef þá trú að mikill hluti þeirra atkvæða séu komin frá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins. Engu að síður eru möguleikar Kristjáns engir enda þarf 9-10% atkvæða til þess að ná inn manni.
Þar sem ljóst er að atkvæði greidd T-listanum falla dauð og ógild hvet ég fólk til þess að henda ekki atkvæði sínu og íhuga það sem mestu máli skiptir - það er að ríkisstjórnin haldi velli í þessum kosningum.

Óvissa Frjálslyndra
Fylgi Frjálslynda flokksins er að hluta til frá fyrrum Sjálfstæðismönnum sem telja að engar breytingar verði gerðar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Sú skoðun er einfaldlega röng. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að skoða breytingar á núverandi kerfi sem verða munu til góðs fyrir greinina og landsmenn alla en er ekki tilbúinn að kollsteypa því kerfi og um leið setja fyrirtækin í gjaldþrot og störfin í uppnám. Tillögur Frjálslynda flokksins eru nánast eingöngu hugsaðar út frá veiðum en ekki út frá vinnslu eða sölu afurða. Yfirlýsingar oddvita Frjálslynda flokksins í kjördæminu um það magn sem hægt er að veiða árlega er dæmi um óábyrgar og hugsunarlausar tillögur sem ekkert stendur á bak við.

Alþingi og Suðurnes
Fjölmörg mál hafa verið tekin föstum tökum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar frá síðustu kosningum. Margt er í farvatninu bæði sveitarfélaginu svo og á Suðurnesjum öllum. Má þar nefna Reykjanesbrautina sem dæmi. Til þess að vinna þeim málum fylgi þarf í mörgum tilfellum gott samstarf bæjarstjórna og ríkisstjórnar. Því er mikilvægt að málsvarar okkar í sveitarstjórnum séu í góðum tengslum við þingmenn og ríkisstjórn. Þau tengsl getum við tryggt með því að velja Sjálfstæðisflokkinn til forystu.
Atkvæði greidd öðrum flokkum er stuðningur við stjórnarandstöðuna. X-D

Böðvar Jónsson
skipar 5. sæti á lista
Sjálfstæðisflokksins
í Suðurkjördæmi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024