Von á líflegum bæjarstjórnarfundi
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem haldinn verður klukkan 17:00 í dag er dagskráin þéttskipuð. 20 mál eru á dagskrá og meðal annars tillaga Sjálfstæðisflokksins um breytt stjórnskipulag Reykjanesbæjar en búast má við töluverðum umræðum um það mál. Á fundinum verður einnig tekin fyrir tillaga Sjálfstæðisflokksins um framtíðarsýn, stefnu og meginverkefni 2002-2006. Framsóknarflokkurinn leggur einnig fram tillögu um að sett verði á laggirnar sérstök upplýsinga- og menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ, en Sjálfstæðisflokkurinn er einnig með slíka tillögu. Það má því búast við miklum umræðum á fundinum í kvöld og án efa eiga margir eftir að tjá sig.