Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Von, verndum okkar nágrenni
Miðvikudagur 10. desember 2003 kl. 15:25

Von, verndum okkar nágrenni

Nemendur í áfanganum fyrirtækjarekstur í öldungadeild Fjölbrautaskóla Suðurnesja stofnuðu fyrirtækið Von í upphafi haustannar.  Von, sem stendur fyrir “Verndum okkar nágrenni”, gaf út umhverfisbækling sem hefur verið dreift á öll heimili og fyrirtæki á Suðurnesjum í þessari viku. Hugmyndin að þessum bæklingi varð til er Reykjanesbær veitti Bláa hernum og fleirum umhverfisverðlaun. Með þessum bæklingi er verið að vekja Suðurnesjamenn til umhugsunar um endurvinnslu og nýju sorpeyðingarstöðina Kölku. Bæklingurinn er unnin í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og önnur fyrirtæki sem styrktu útgáfu hans með styrktarlínum og auglýsingum.

Fyrirtækið hefur verið lagt niður en það var rekið með hagnaði.  Hluti hagnaðarins rennur til Þroskahálpar á Suðurnesjum og til kaupa á ruslafötum fyrir Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Samið hefur verið við kennara í FOH 103, sem er áfangi í formhönnun, um að haldin verði hugmyndasamkeppni um útlit á ruslafötunum.  Er það von starfsmanna Vonar að það muni hvetja nemendur til að bæta umhverfi sitt. 

Fyrirtækjasmiðjan er námskeið þar sem nemendur stofna og reka fyrirtæki í 13 vikur. Námskeiðið er unnið í samstarfi við alþjóðasamtökin Junior Achievement, sem eru félagssamtök rekin án hagnaðarsjónamiða og fjármögnuð af fyrirtækjum, sjóðum og einstaklingum.  Sparisjóðurinn í Keflavík lagði til fjármálaráðgjafa, Baldur Guðmundsson.

Starfsmenn Vonar eru Rut Ragnarsdóttir, Aðalheiður Hilmarsdóttir, Guðborg Eyjólfsdóttir, Laufey Kristjánsdóttir, Rakel Gunnarsdóttir, Birkir Marteinsson, Jódís Garðarsdóttir, Hafdís Ósk Guðlaugsdóttir, Steinþór Geirdal Jóhannsson, Rúna Björk Einarsdóttir og Guðrún Sædal Björgvinsdóttir

Hildur Bæringsdóttir
kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024