Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 8. mars 2004 kl. 10:07

Vogmærin í Vogum

Þann 3. mars 2004 komu þrjú sjö ára börn í síðdegisgæslu Stóru-Vogaskóla sigri hrósandi með furðufisk sem þau höfðu fundið í fjörunni rétt við skólann og rústir höfuðbólsins Stóru-Voga. Sædís María Drymkowska og Heiðdís Ósk Geirsdóttir fundu fiskinn í fjörunni og þeim hugkvæmdist að renna undir hann þöngli og lyfta upp og halda síðan á þönglinum á milli sín þar sem fiskurinn hékk á. Sveinn Ólafur Lúðvíksson, jafnaldri þeirra, hjálpaði þeim með fiskinn upp úr fjörunni. Börnin lögðu hann á grasflöt við skólann og dreif að forvitna krakka. Ég undirritaður, náttúrufræðikennari skólans, var sóttur og varð að viðurkenna að  hafa aldrei séð svona fisk áður. Ég fór því á bókasafnið til að fletta fiskabókum og komst fljótt að því að þetta var vogmær, Trachipterus arcticus (Brunich 1771).
Fiskurinn og börnin voru ljósmynduð og síðan fór ég með hann í fiskverkunarhús Þorbjörns Fiskanes í Vogum og fékk hann þar geymdan á ís yfir nóttina. Gunnari Jónssyni á Hafrannsóknarstofnun var tilkynnt um fundinn og sagði hann vogmey hafa fundist fyrir skömmu fyrir norðan land. Vogmey skolar af og til á land en lítið veiðist af henni. Einnig var fundurinn tilkynntur til Náttúrustofu Reykjaness í Sandgerði og til Víkurfrétta og Morgunblaðsins. Haft var samband við Jón Baldur Hlíðberg teiknara og þegin hjá honum góð rá um meðferð og varðveislu.
Daginn eftir var vogmærin skoðuð, mynduð og mæld. Við Ragnheiður E. Jónsdóttir leikskólakennari sýndum hana við leikskólann og vakti hún mikla athygli og aðdáun barnanna sem skoðuðu hana og þukluðu alls óhrædd. Hin stóru augu vöktu sérstaka athygli. Einnig fannst þeim flott það sem eftir var af fíngerða silfurlitaða hreistrinu. Yngstu grunnskólabörnin voru einnig mjög áhugasöm, en unglingarnir sem sáu hana sögðu ojjj öll sem eitt og sýndu takmarkaða hrifningu.
Við Sveinn Kári Valdimarsson frá Náttúrustofu Reykjaness skoðuðum inn í vogmeyna og fjarlægðum innyflin og við Snæbjörn Reynisson skólastjóri lögðum hana til á fjöl. Ákveðið var að taka boði fyrirtækis Særúnar Jónsdóttur og Rangars Karls Þorgrímssonar um að þurrka fiskinn í þurrkklefa þeirra eftir helgina, en þangað til er hann geymdur í frosti hjá Þorbirni Fiskanesi. Hugmyndin er að koma honum fyrir í ramma undir gleri og hafa til sýnis í Stóru-Vogaskóla.
Vogmærin hefur verið nýdauð er börnin fundu hana því það var ekkert farið að slá í hana og þegar hún var opnuð daginn eftir var lifrin enn nánast fersk. Rauði liturinn var enn á sporðugganum en var farinn að dofna á bakugganum. Húðin rauða milli geislanna í uggunum er mjög þunn og var rifin á nokkrum stöðum. Hinir örsmáu kviðuggar voru dottnir af en örsmáir eyruggarnir enn á sínum stað.
Myndin í bókinni Fiskar í N-Atlantshafi (Mál og menning 1992) er ekki alls kostar rétt. Þar er eyrugginn allt of stór og endi sporðsins hvelfdur en á okkar eintaki er hann svolítið sýldur. Teikning Goode & Bean í Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson er mun betri að þessu leyti, sömuleiðis litteikning Jóns Baldurs á www.fauna.is nema hvað efstu geislarnir í sporðinum eru þar of stuttir.
Vogmærin er furðulegur fiskur. Hún minnir um margt á flatfisk (t.d. kola) þar sem hún er mjög þunn og há, en hins vegar eru báðar hliðarnar eins og augun eru hvort á sinni hlið, enda liggur hún ekki á hlið á botni eins og flatfiskar gera. Til marks um það hvað hún er þunn þá vó þessi meters langi fiskur ekki nema 1,8 kg. Bakugginn er býsna stór en raufaruggi er enginn. Raufin er því lítt áberandi þar sem hún er miðja vegu milli hauss og sporðs. Stirtlan er mjög mjó og veikbyggð en nokkuð myndarlegur sporður á endanum sem vísar heldur upp á við. Hárauður litur á sporði og uggum setur á hana sérstakan svip. Kjafturinn er undrasmíð. Þegar hún opnar hann teygist hann fram um 7 cm og til að svo megi vera hreyfast mörg höfuð- og kjálkabein býsna liðugt. Á vangann minnir hún eilítið á hund af bolabítskyni þegar kjafturinn er lokaður og þannig er hún á öllum myndum sem ég hef séð. Þegar kjafturin opnast gjörbreytist höfuðlagið og myndast talsverð trjóna eða stútur með kjaftopið fremst.
Okkur Sveini virtist þessi vogmær vera ókynþroska hængur (karlkyn), enda er hún sögð vera 2-3 m. fullvaxin.
Heimkynni Vogmeyjar eru sögð vera á 100-900 m dýpi í hafinu suður af Íslandi. Nýlega fannst ein rekin fyrir norðan. Það vakti athygli okkar Sveins Kára að magainnihaldið virtist eingöngu vera salli af þang- og þarablöðku. Sveinn gat sér til um að hún hafi óvart gleypt þang- og þaramylsna sem mikið er í sjónum upp við land eftir brim. Óvíst er hvort hún getur nýtt sér slíka fæðu þó í magann sé komin. Gunnar Jónsson segir í bók sinni að fæða hennar sé einkum smáfiskar, smokkfiskur og rækja. Sveinn Kári hafði séð á vefnum kvikmynd sem kafarar höfðu tekið af síldarkóngi, hinum tignarlega frænda vogmeyjarinnar, þar sem hann var að taka fæðu í sjó og var hann upp á endann við þá iðju.
Hvers vegna skyldi hún heita vogmær? Á dönsku heitir hún vågmær og sænsku vågmär, en nöfn hennar á færeysku, norsku, þýsku, frönsku og ensku tengjast mey á engan hátt, né heldur latneska fræðiheitið. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fjalla um hana í ferðabók sinni og kalla  hana þar ýmist vogmeri eða vogmær. Þeir segja m.a. (þýð. Steindór Steindórsson): “Eðli vogmerarinnar er að koma með flóðinu upp að landi í grunnum víkum og vogum, þar sem botn er sendinn. Þegar fjarar, verða þær stundum eftir á þurru og geta lifað þar stutta stund. Trúlegt er að nafnið sé dregið af þessu, og af því að hún er svo litfögur og fiskur hennar mjúkur, sé hún heldur kennd við mey en meri og vogmær sé rétta nafnið”.
Gunnar Jónsson notar vogmær í bók sinni, Íslenskir fiskar, en vogmeri í sjávardýraorðabókinni á www.hafro.is
Sveinn Kári [email protected] tók stafrænar myndir sem hann getur miðlað. Einnig tók Snæbjörn skólastjóri myndir sem geymdar eru í skólanum, [email protected]

Mál og vikt:

Lengd frá trýni (kjaftur lokaður) að enda stirtlu

100 cm

Lenging við að galopna kjaftinn:

7 cm

Lengstu sporðgeislar

16 cm

Mál frá gotrauf að enda stirtlu.

47 cm

Mesta hæð, skammt framan við gotrauf

38,5 cm

Breidd (þykkt) móts við gotrauf          

1,7 cm

Breidd (þykkt) við eyrugga

2,8 cm

Mesta breidd haus við aftari brún augna

3,3 cm

Þvermál augntófta (augna)

3,8 cm

Breidd opins kjafts (innanmál fremst)

3,5 cm

Hæð kjaftops fremst

4,0 cm

Mesta lengd bakuggageisla (ofan við gotrauf)

8 cm

Þyngd með innyflum

1800 g

Þyngd innyfla (magi og þarmar tæmdir)

97 g

Þar af lifur

23 g

Tálkn og tálknabogar

18 g

 

Í Vogum, 7. mars 2004
Þorvaldur Örn Árnason.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024