Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vitlaust gefið
Föstudagur 21. júlí 2017 kl. 06:00

Vitlaust gefið

Heilbrigðisþjónustunni á Suðurnesjum er ábótavant. Það er staðreynd sem íbúum hér er vel kunn. Nýleg úttekt Landlæknis á starfseminni staðfestir þetta. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur mætt afgangi í kerfinu um árabil. Suðurnesin eru öflugt og ört vaxandi samfélag sem tekur einnig á móti miklum fjölda ferðamanna á ári hverju. Við þurfum því að tryggja rekstur HSS til framtíðar.

HSS fær næstminnst úr ríkissjóði
Í Víkurfréttum birtist nýlega grein frá hjúkrunarráði HSS. Greinin bar heitið: „Nú þurfa allir að taka á honum stóra sínum“. Undirrituð taka heilshugar undir það. Í grein hjúkrunarráðs var farið yfir nokkrar afar mikilvægar staðreyndir er varða stöðu HSS, eins og til dæmis að Slysa- og bráðamóttaka HSS er með minnstu mönnun miðað við aðrar stofnanir á landinu þrátt fyrir að vera ein af þremur stærstu slysa- og bráðamóttökum landsins. Deildarstjórar Slysa- og bráðamóttöku HSS rituðu einnig grein í VF þar sem þær draga fram það misræmi sem er á milli úthlutunar ríkisfjár til heilbrigðisstofnanna. Þar fer HSS verulega halloka en samkvæmt  skýrslu Ríkisendurskoðun (mars 2016) kom fram að HSS fékk næst minnst allra heilbrigðisstofnana landsins eða tæpa 2,5 milljarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands fékk 4,7 milljarða sem er svipað og Suðurland fékk. Eina stofnunin sem fékk minna en við voru Vestfirðirnir með tæpa 2 milljarða en Vestfirðirnir eru talsvert minna samfélag en Suðurnesin. HSS tekur á móti svipuðum fjölda sjúklinga og bráðamóttakan á Akureyri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Starfsfólk þarf að hlaupa hraðar
Í nýlegri rannsókn kemur m.a. að aukning í komum á erlendum ferðamönnum á bráðamóttöku HSS hefur aukist um 344% milli áranna 2005 og 2016. Aðrir þættir hafa líka áhrif, eins og gríðarleg fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun hælisleitenda. Margir íbúar Ásbrúar eru hér tímabundið og eru því ekki skráðir með lögheimili hér en fá samt sem áður þjónustu hjá HSS. Auðvitað þarf að taka slíka þætti með í dæmið þegar fé er úthlutað til reksturs. Þrátt fyrir þessa fjölgun þjónustuþega hefur mönnun á vaktir ekki aukist. Eftir miðnætti er t.d. enginn hjúkrunarfræðingur á vakt á slysa- og bráðamóttökunni, aðeins einn læknir. Um helgar er enn styttri vöktun en þá er enginn hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku í 16 klukkustundir af 24. Þessi þjónusta er ekki boðleg fyrir samfélag sem telur ríflega 20 þúsund íbúa auk þess að hér er staðsett alþjóðleg flugstöð og mest sótti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið. Þetta álag er heldur ekki boðlegt fyrir starfsfólk HSS sem gerir sitt allra besta tili að hlúa að veikum og slösuðum alla daga, allt árið.

Tryggjum sanngjarnari skiptingu fjármagns
Ástandið á HSS er því miður lýsandi fyrir heilbrigðiskerfið okkar að mörgu leyti. Það hefur þróast en þó ekki verið gerð heildstæð stefnumótun fyrir kerfið til langs tíma. Heilbrigðiskerfið virðist stundum lifa sjálfstæðu lífi og fjármagni útdeilt eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Þessu viljum við Framsóknarmenn breyta og gerðum að forgangsmáli okkar á síðasta þingi að gerð yrði heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Málið var samþykkt á vordögum og nú stendur yfir vinna í heilbrigðisráðuneytinu sem við fáum fregnir af frá ráðherra á haustdögum.

Hvað felst í heilbrigðisáætlun?
Áætlunin gengur m.a. út á að fé verði úthlutað til stofnana með markvissum hætti og tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, forvarna og lýðheilsu og umfangi ferðamannastaða, svo eitthvað sé nefnt. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt. Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Að lokum er skýrt kveðið á um að fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Heildstætt kerfi og jafnræði
Tölurnar sýna okkur það svart á hvítu að það er ekki rétt gefið. Því þarf að bregðast við strax en fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir 2018 verður lögð fyrir þingið í september. Heilbrigðisáætlunin er verkefni sem mun til lengri tíma tryggja aukið jafnræði á milli stofnana og að heilbrigðiskerfið okkar sé byggt markvisst upp og horft til allra þátta þess.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson,
þingmenn Framsóknarflokksins