Vísindakeppnin haldin öðru sinni í Reykjanesbæ
Nú eru liðin sem taka þátt í vísindakeppninni “Virkjum vísindin og hugvitið hjá unga fólkinu” að leggja lokahönd á undirbúning fyrir keppnina sem fram fer þriðjudaginn 3. júní kl. 13:30, í Akurskóla. Keppnin er liður í eflingu raungreina í grunnskólum á Suðurnesjum en verkefnið er samstarfsverkefni Hitaveitu Suðurnesja, Norðuráls og Reykjanesbæjar. Í ár taka yfir sjötíu nemendur þátt í keppninni en þeir eru í Akurskóla, Heiðarskóla, Holtaskóla, Njarðvíkurskóla, Gerðaskóla í Garði og Stóru-Vogaskóla. Í ár eiga nemendur að hanna og búa til virkjun sem framleiðir rafmagn. Ýmsar leiðir eru færar í þeim efnum og hafa nemendur í öllum skólunum notið stuðnings kennara við að finna heppilegar lausnir þó lögð sé áhersla á þeirra eigið hugvit. Þema keppninnar er orka og nemendur eiga einnig að kynna rannsóknarefni sem fjallar um beislun orkunnar. Allir nemendurnir sem þátt taka í verkefninu skoðuðu Reykjanesvirkjun og Svartsengi í boði Hitaveitu Suðurnesja og fengu fræðslu um hvernig framleiðsla rafmagns fer fram í raunverulegu raforkuveri. Þessi keppni verður án efa skemmtileg og viljum við hvetja fólk til þess að koma og fylgjast með henni. Gert er ráð fyrir að hún taki um tvær klukkustundir.
Jónína Ágústsdóttir, verkefnisstjóri