Virkjum lýðræðið
Mikill fjöldi frétta berst þessa dagana af gjaldþroti kísilversins í Helguvík. Félagið er varla komið í skiptameðferð um leið og stærsti kröfuhafinn Arion banki gefur það út að hann muni óska eftir því að ganga að veðum sínum og freista þess að koma kíslilverinu í rekstur á ný. Til þess að svo megi verða er þó ljóst að ráðast verður í umfangsmiklar endurbætur á verksmiðjunni að kröfu Umhverfisstofnunar eigi reksturinn að hefjast á ný. Afstaða Arion banka er skiljanleg út frá þeim fjármunum er þeir hafa lagt í fyrirtækið, en vekur um leið fjölmargar spurningar um framhaldið.
Við gjaldþrot United Silikon falla í burtu allar þær skuldbindingar sem bærinn hafði undirgengist gagnvart því fyrirtæki. Bærinn tapar þeim 160 milljónum, auk þeirra vaxta sem ógreiddar eru fyrir lóðina sem kísilverið er með starfsemi sína á. Hvað lóðareigendur ætla sér að gera við lóðina er því ekki lengur í höndum bæjaryfirvalda, en hvernig á henni verður byggt er í höndum bæjarins. Við höfum um það að segja hvort það kísilver sem Arion banki boðar þarna verði rekið verði að veruleika.
Bæjaryfirvöld eru það stjórnvald sem hafa síðasta orðið um breytingu á deiliskipulagi lóðar þeirrar er kísilverið stendur á. Það deiliskipulag er forsenda þess að kísilverið geti tekið til starfa á ný. Nú þegar hefur gildandi deiliskipulag verið brotið hvað varðar hæð þeirra húsa sem eru risin á lóðinni. Neyðarskorsteinn sá sem nú er orðinn forsenda þess að kísilverið hefji starfsemi sína á ný gæti orðið allt að tvöfalt hærri en núverandi byggingar eru. Viljum við það að neyðarskorsteinn kísilversins verði einkennismerki bæjarins um ókomna tíð?
Nýtt tækifæri
Við fáum nú óvænt tækifæri til að meta stöðu okkar á ný. Reynslan ætti að segja okkur að nú sé rétt að staldra við. Íhuga enn á ný hvort uppbygging í anda þeirrar stóriðjustefnu sem rekin hefur verið í Helguvík sé nú akkúrat það sem sé bænum okkar fyrir bestu til langrar framtíðar litið?
Nú getum við bæði metið hana út frá fyrirliggjandi gögnum, og það sem er mest um vert, við getum metið hana út frá reynslunni. Stóðst það sem hafði verið lofað? Skapaði kísilverið allan þann fjölda hálaunastarfa sem boðað hafði verið? Var þetta sú „græna stóriðja“ sem boðuð var?
Framtíð kísilversins í Helguvík er ekki einkamál Arion banka eða fjárfesta eins og þeir vilja vera láta. Hún er mál allra bæjabúa í Reykjanesbæ . Það er í okkar höndum hvernig framtíðaruppbyggingu í Helguvík verður háttað. Við eigum og þurfum að senda skýr skilaboð til þeirra sem virðast hafa ákveðið að áfram skuli haldið á sömu braut, að það sé ekki þeirra að ákveða. Sú ákvörðun sé nú í höndum bæjarbúa sem eiga eftir að eiga sitt samtal og taka ákvörðun áður en undir nokkuð verður undirskrifað eða skuldbindingar gerðar. Það gerum við best með því að efna til skuldbindandi kosningar um það deiliskipulag sem ræður nýtingu þeirrar lóðar sem United Silicon hefur til umráða. Það getum við gert samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson
Hannes Friðriksson