Virkjum Frjálsa aflið fyrir íbúa Reykjanesbæjar!
Framundan eru sveitarstjórnarkosningar þar sem íbúar Reykjanesbæjar velja sér framtíð. Bæjarbúar hafa lært af reynslunni. Þeir vita að þeir geta valið á milli draumkenndra loforða sem munu koma fjárhag bæjarfélagsins aftur í kaldakol og raunhæfra loforða þar sem ábyrg stjórnun leiðir af sér betra bæjarlíf. Stefna okkar hjá Frjálsu afli snýst um hið síðarnefnda.Fjármál sveitarfélagsins, uppbygging atvinnulífs, málefni barnafjölskyldna, eldri borgara og íþróttafélaga er það sem brennur mest á okkur.
Skuldastaða bæjarins hefur lagast mikið á líðandi kjörtímabili. Á árinu 2014 var bæjarsjóður rekinn með 4,8 milljarða tapi, en árið 2017 var hagnaður af rekstrinum 1,2 milljarðar. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum verðum við að ná skuldum miðað við tekjur niður í 150% fyrir árslok 2022. Skuldaviðmið Reykjanesbæjar var í árslok 2014 228% hjá bæjarsjóði en 233% hjá samstæðunni en í árslok 2017 158% en 186% hjá samstæðunni.
Sóknin gengur vel en Reykjanesbær er þó enn undir smásjá Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga. Við í bæjarstjórn erum kosin til að fara með fjármuni íbúa bæjarins og okkur ber skylda til að fara vel með þá. Það höfum við líka lagt okkur fram við að gera. Þrátt fyrir aðhald í rekstri höfum við varið grunnþjónustu við íbúana og höfum náð að lækka útsvar og fasteignagjöld á árinu. Einnig viljum við veita eldri borgurum meiri afslátt af fasteignagjöldum en nú er með hærri tekjutengingu.
Við eigum að veita börnum okkar góða menntun. Við eigum að styðja dyggilega við bakið á hvers konar forvarnarstarfi eins og íþróttum. Veita eldri borgurum aðgang að þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins. En við þurfum einnig að koma sem flestum til sjálfsbjargar. Næsta stóra verkefnið er bygging Stapaskóla sem þegar er fullfjármagnað og er í útboðsferli.
Fulltrúar Á- listans Frjáls afls munu leggja sig alla fram til að ná fram verulegum umbótum fyrir bæjarbúa. Við viljum efla bæjarlífið þannig að öllum geti liðið vel.
Setjum X við Á á kjördaginn 26. maí. Virkjum Frjálst afl til framfara í Reykjanesbæ!
Gunnar Þórarinsson,
skipar 1. sæti hjá Frjálsu afli