Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Virðum útivistarreglur á Ljósanótt sem og aðra daga
Sunnudagur 26. ágúst 2012 kl. 11:00

Virðum útivistarreglur á Ljósanótt sem og aðra daga

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð í Reykjanesbæ verður haldin í þrettánda sinn frá 30. ágúst til 2. september. Reykjanesbær hefur ávallt haft það að leiðarljósi að Ljósanótt sé fjölskylduhátíð og við skipulagningu hennar er lögð áhersla á að dagskráratriði höfði til fólks á öllum aldri.  Hátíðarhöldin hafa alla jafna farið vel fram og ánægjulegt að sjá fjölskyldur úr öllum áttum sameinast með okkur í Reykjanesbæ á þessum tímamótum.

Við viljum hvetja foreldra að vera samtaka um að virða útivistartíma barna, hvort sem um er að ræða á Ljósanótt eða önnur kvöld því það er sannreynt að ákveðin hætta fylgir því að börn séu eftirlitslaus úti eftir að rökkva tekur. Þann 1. september breytist útivistartíminn þannig að börn 12 ára og yngri mega ekki vera lengur úti en til kl. 20.00 nema í fylgd með fullorðnum og börn á aldrinum 13 til 16 ára skulu ekki vera ein á almannafæri eftir kl. 22.00. Það er því mikilvægt að fjölskyldur fari saman heim úr miðbænum öll kvöldin að lokinni dagskrá hverju sinni.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í tengslum við hátíðina verður rekið athvarf í öryggismiðstöð að Hafnargötu 8.  Að athvarfinu standa Fjölskyldu- og félagsþjónustan, Útideildin, Lögreglan og Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ. Athvarfið verður starfrækt föstudags- og laugardagskvöld eftir að skipulagðri dagskrá lýkur. Börn og ungmenni sem eru ein á ferli og/eða eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna verða færð í athvarfið og foreldrum gert að sækja þau.  

Foreldrar stöndum saman, verum góðar fyrirmyndir barna okkar.  Megum við öll eiga ánægjulegar stundir á Ljósanótt.

Hátíðarkveðjur

María Gunnarsdóttir
Forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar