Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Virðing og vinátta
Sunnudagur 6. maí 2007 kl. 17:25

Virðing og vinátta

Virðing skiptir svo gríðarlega miklu máli þegar kemur til hjónaskilnaða svo að hinir fullorðnu og börnin, sem eru ef til vill í spilinu, hljóti ekki skaða af.  Það er því mikilvægt að freista þess að vinna vel úr hlutunum þegar svo er komið að hjón eða sambúðarfólk á ekki samleið lengur, burtséð frá því hvort hinir fráskildu kjósa sér annan maka eða ekki.  Þrátt fyrir að hjónaskilnaðir séu tíðir á Íslandi eru margir, sem sjá ekki leiðir út.  Við hjónaskilnað eða sambúðaslit snýst tilveran svolítið við og allt breytist, ýmist á jákvæðan eða neikvæðan hátt fyrir viðkomandi.  Vinátta upp
að vissu marki er mikilvæg ef börn eru til staðar þrátt fyrir að skilnaðarferlið hafi verið langt, erfitt og sársaukafullt, en forðast skal, eins og heitan eldinn, að nota börnin
sem bitbein milli foreldra eða til að bera þrætumál á milli hinna fullorðnu.  Nái fólk ekki að höndla þetta upp á eigin spýtur, er alltaf rétt að leita sérfræðiaðstoðar, t.d. hjá sálfræðingum eða fjölskylduráðgjöfum.


En til hvaða ráða er hægt að grípa samfara skilnaði til að sættast við orðin hlut, sjálfa þig, fyrrverandi maka þinn og tilveruna alla?
1. Áfallið. Þú getur reynt að átta þig á breyttum aðstæðum og gert þér grein fyrir að þú ert ein/n á báti.  Þú getur reynt að fá fyrrverandi maka til baka.  Þú situr og bíður aðgerðalaus og ekkert breytist til batnaðar.
2. Depurðin. Lífið hefur engan tilgang lengur og þú ert uppfull/ur af biturð, hatri og hefnigirni.  Þú dregur þig inn í skel og forðast mannamót.  Þú kvelur þig á því að þú hafir ekki reynt allt til að bjarga hjónabandinu. 

3. Úrlausnin. Viðurkenndu það fyrir þér að fyrrverandi maki snýr ekki aftur svo biðinni ljúki endanlega.  Þú þarft ekki lengur að óttast tilfinningar þínar við að hitta hann/hana.  Þér finnst nýr kunningsskapur alls ekki vera óhugsandi. Forðastu að ásaka þig og pína meira en orðið er.

4. Ný framtíð. Þú setur þér ný markmið, breytir lífinu til hins betra og endurmetur áhugamálin og vinahópinn.  Það er þér í sjálfsvald sett hversu lengi skilnaðarferlið varir.  Þú kemst ekki hjá því að fara í gegnum öll stig þessa ferlis, en þú ákveður tímamörkin sjálf.

En hvað ber að forðast í þróun nýs vinskapar?
Erfitt er að þróa nýtt samband án skuldbindinga. 
Mikilvægt er að hefja ekki nýtt samband til þess eins að flýja gamla sambandið og vinátta við hitt kynið er heldur ekki vænlegt ef henni er aðeins ætlað að fylla tómarúm og stoppa upp í göt.  Slík sambönd eru aðeins meiðandi og hafa ekkert með vináttu að gera.  Kynlíf með fyrrverandi maka yrði aðeins til að flækja málin og vekja falsvonir.  Forvitni og hnýsni um fyrrverandi maka virkar meiðandi.  Nýtt samband er aðeins fýsilegt ef fortíðin hefur í alvörunni verið afgreidd sem fortíð og vottur af sjálfsvirðingu þarf að fylgja viðkomandi einstaklingum inn í nýja
framtíð til að öllum, fullorðna fólkinu jafnt sem börnunum, geti liðið vel og nái að dafna.

Birgitta Jónsdóttir Klasen.
Höfundur er náttúrulæknir, fjölskylduráðgjafi og rithöfundur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024