Virðing, samvinna og ábyrgð
Ágætu Garðbúar. Á þessum fallega degi, Verkalýðsdeginum þegar maísólin okkar, okkar einingarbands fer að ylja og næra menn og gróður til þarfra verka, kynnti N listinn í Garði framboð sitt. N listinn er þverpólitískur listi, skipaður einstaklingum sem eiga það sameiginlegt að forgangsraða málefnum í þágu fjölskyldna, íbúalýðræðis, umhverfis og ábyrgrar fjármálastjórnunar.
Kjörtímabilið sem senn er á enda hefur verið óvenjulegt og vakið eftirtekt og undrun fyrir margar sakir. Hver og einn getur í huga sínum farið yfir þær ástæður og eftirmála. Það er ekki út af engu sem N listinn hefur talað fyrir óhlutbundinni kosningu og lagt fram nokkrar tillögur er lúta að þessari ágætu hugmyndafræði, en án árangurs.
Fullreynt er að þessu sinni en við munum gera okkar til að þetta verði framtíðin. N listinn hlýtur auðvitað að fagna þeirri umræðu sem verið hefur í sveitarfélaginu undanfarnar vikur um íbúalýðræði og óhlutbundnar kosningar. Það er það sem þarf, vitundarvakningu og vonandi bera íbúar sveitarfélagsins gæfu til þess að fara þessa leið í kosningunum 2018. Það hlýtur að telja, þegar 600 kosningabærir og vel upplýstir bæjarbúar vilja skoða og fá að taka um það ákvörðun að hér verði virkt íbúalýðræði, eins og undirskriftalistar sýna. Því fylgir mikil ábyrgð að vera í bæjarstjórn. En vonandi heyra meiri og minnihluti sögunni til, bæjarstjórn á að vinna sem ein heild að hagsmunum íbúa þrátt fyrir ólíkar stjórnmálaskoðanir og stefnuskrár. Menn þurfa ekki alltaf að vera sammála en það á að vinna að öllum málum á lýðræðislegan hátt.
N listinn hefur sannreynt að ólíkar stefnur stjórnmálaflokka sem raðast á einn lista gengur mjög vel. Það er samvinnan við íbúana og sameiginleg sýn okkar á þarfir fólksins sem hér býr sem gildir. Við erum fólkið í Garðinum sem ætlum að starfa fyrir fólkið í Garðinum.
Á félagsfundi sem haldinn var 29. apríl var framboðslistinn samþykktur samhljóða.
1. Jónína Holm
2. Pálmi S. Guðmundsson
3. Álfhildur Sigurjónsdóttir
4. Ólafur Ágúst Hlíðarsson
5. Heiðrún Tara Stefánsdóttir
6. Bragi Einarsson
7. Helgi Þór Jónsson
8. Sigurbjörg Ragnarsdóttir
9. Díana Ester Einarsdóttir
10. Markús Finnbjörnsson
11. Ásta Óskarsdóttir
12. Jón Sverrir Garðarsson
13. Viggó Benediktsson
14. Þorbjörg Bergsdóttir
N listinn mun áfram leggja sitt af mörkum til að standa vörð um hagsmuni íbúa Garðs undir kjörorðunum: Virðing, samvinna og ábyrgð. N listinn mun áfram beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri stjórnsýslu í sátt og í samvinnu við íbúa. Helstu stefnumál okkar eru íbúalýðræði, umhverfismál og málefni fjölskyldna og velferðar. Við erum fólkið í Garðinum, einingarbandið sem hefur svo margt uppá að bjóða, m.a. árvekni, réttsýni, ábyrgð, samvinnu og virðingu að ógleymdri gleðinni sem er í senn birta og ylur sem þenur út æðarnar og er því eitt besta N lista vítamínið. Njótum daganna, fuglasöngsins, sólarinnar, fersku vindanna og umfram allt kærleikans.
Á myndina vantar Díönu Ester Einarsdóttur, Markús Finnbjörnsson og Þorbjörgu Bergsdóttur sem því miður komust ekki vegna óviráðanlegra ástæðna.
Fyrir hönd N lista,
Jónína Holm