Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Virðing  er mér efst í huga
Föstudagur 20. febrúar 2009 kl. 10:07

Virðing er mér efst í huga

Þegar ég opna blaðið og sé að hann Sláni, Sigurgeir er fallinn frá vöknar mér um augu.  Það er skrýtið, þar sem ég þekki manninn nánast ekkert  og þó, kannski þekkti ég hann bara töluvert.
Þegar ég , sem hálfgerður krakki,  var að kenna í Holtaskóla hér á árum áður varð mér starsýnt á þennan stóra og myndarlega mann sem var að tala við krakkana er þá voru að reykja í hornum og húsasundum fyrir utan skólann.  Það leyfðist  „innan gæsalappa“ í þá tíð.  Ég hafði á þeim tíma komist yfir bækurnar hans Sigurgeirs hjá pabba og ég hafði gríðarlega gaman af að lesa mörg af einstaklega heimspekilega spaugilegum ljóðum hans.  

Ég man að þá var ég m.a. að kenna íslensku og ljóðalestur.  Ég stökk út í einum frímínútunum og spurði  hann hvort hann væri ekki til í að koma í heimsókn til mín í ljóðatíma og lesa upp úr ljóðum sínum.  Hann var þá nýlega búin að gefa út ljóðabók.  Hann hélt það nú og kom einn daginn í skólann til mín í heimsókn.   Ég var auðvitað búin að undurbúa krakkana fyrir heimsóknina og þau lögðu sig öll fram og man ég ennþá eftir góðu skúffutertunni sem einhver af nemendunum höfðu komið með að heiman.   Já það stóð mikið til, dúkað borð og kræsingar og ég man sérstaklega eftir því að þau undirbjuggu sérstakt púlt fyrir skáldið, af því að ég var búin að segja þeim hvað hann væri hávaxinn.
Svo kom Sigurgeir í öllu sínu veldi með plastpoka í hendi.  Hann tók til við fyrirlesturinn og greip hug og hjörtu krakkanna.  Þau lágu flöt fyrir honum, hreint út sagt.  Hann lagði ekki  fyrst og fremst áherslu á ljóðin sín í þessum fyrirlestri sínum heldur fór yfir allt sem raunverulega skipti mál, heilsu þeirra og hag, talaði við þau um hvað þau væru að gera með reykingum og óheilbrigðu líferni, umhverfismálin voru honum hugleikin og hann ræddi við þau um verðmætamat og að lokum las hann upp úr ljóðum sínum eins og honum einum var lagið.  Hann var hreint út sagt sá skemmtilegasti fyrirlesari sem ég hef fengið inn í mína kennslustund.  

Ég vil þakka Sigurgeiri fyrir þessa dýrmætu stund með okkur í skólanum í þá gömlu góðu daga og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð við fráfall þessa merka manns.

Með virðingu,
Sveindís Valdimarsdóttir, kennari í Keflavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024