Aðsent

Vinstri græn - það er málið
Miðvikudagur 26. október 2016 kl. 06:00

Vinstri græn - það er málið

- Aðsend grein frá Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur og Ara Trausta Guðmundssyni

Náttúruauðlindir Íslands eru ekki margar miðað við sum önnur lönd en ríkulegar. Þær helstu eru jarðvegurinn/gróðurinn, lífríki sjávar, vatnsföll og stöðuvötn, jarðhitasvæði, byggingarefnisnámur og náttúrufyrirbæri eða svæði með fjölbreyttum og/eða sérstæðum jarðmyndunum, landslagi og vistkerfum.

Nútíð og framtíð okkar er háð nytjum þessarrar náttúru. Þá getum við horft á töluverða fjölbreytni, allt frá landbúnaði og fiskveiðum til tekna af ferðaþjónustu sem mikil meirihluti ferðamanna tekur þátt í vegna náttúru landsins. Ófært er að stunda þessar nytjar án náttúru- og umhverfisverndar. Á milli þeirra tveggja verkþátta verður að vera jafnvægi. Við vitum vel að sú staðreynd felst í hugtakinu sjálfbærni en það nær líka til félagslegs jafnvægis og efnahagslegs jafnvægis.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sjálfbærni er þríþætt hugtak. Og hvort sem er í landbúnaði eða orkuöflun verður að vega og meta alla þrjá þættina í hvert sinn sem teknar eru meginákvarðanir eða mat lagt á lög, framkvæmdir og stefnubreytingar. Sauðfjárbúskapur er til dæmis ekki bara spurning um beitarmál eða beingreiðslur, heldur líka um félagslegt öryggi í sveitum, góða matvælaframleiðslu, mótvægi við loftslagsbreytingar, jöfnuð í tekjum, dreift álag á umhverfið í landinu öllu og endurheimt landgæða, svo eitthvað sé nefnt. Ný vatnsvirkjun snýst um meira en orkuverð eða stærð. Hún snýst líka til dæmis um félagsleg áhrif í héraði, hagkvæmni fyrir þjóðfélagið í heild, bein umhverfisáhrif og samfélagsleg gildi í ólíkum geirum, allt frá ferðaþjónustu til iðnaðar eða samgangna.

Þegar við Vinstri græn leggjum áherslu á sjálfbærni sem leiðarljós atvinnuvega og nattúrunytja, þá er það gert á þessum breiða grunni. Ekki með einhliða og ranga áherslu á hagræðinguna eina, ágóðan einan, þörf einnar atvinnugreinar eða eins fyrirtækis eða án tillits til alvarlegrar stöðu loftslagsmála. Við hugsum heildrænt og hvetjum ykkur til þess sama. Í Suðurkjördæmi búa rúmlega 35 þúsund kjósendur og allmargir erlendir ríkisborgarar. Á ferðum okkar og fundum og í samtölum við fjölmarga skynjum við vel hve velferð fólks er alvarlega ógnað. Við skynjum kröfur um að bæta langvinnan niðurskurð. Að því stefnum við. Á bak við kröfur um betri lífsskilyrði sést svo í óskir um að geta búið sem víðast í þessu stærsta kjördæmi landsins, á nútímalegan hátt, með félagslegu öryggi og fjölbreyttum menntunar- og atvinnutækifærum. Þingmenn VG úr kjördæminu væru traustir talsmenn jöfnuðar, fjölbreyttra byggða, sjálfbærni og samkenndar.
Ykkar er valið.

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi og Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður skipa tvö efstu sæti á lista VG í Suðurkjördæmi.