Vinnuverndarvikan 2006: Örugg frá upphafi!
Vinnuverndarvikan 2006
Ungt fólk og vinnuvernd
Árlega tekur Vinnueftirlitið þátt í samevrópsku átaksverkefni sem kallast Evrópska vinnuverndarvikan. Nú í ár er vinnuverndarvikan helguð ungu fólki og er yfirskrift hennar Örugg frá upphafi.
En hvers vegna að beina sjónum að ungu fólki? Fyrir því eru margar ástæður. Íslensk ungmenni byrja snemma að vinna, mörg hver með námi, og í ýmsum starfsgreinum. Nokkuð er um að unga fólkið vinni langan vinnutíma og taki á sig ábyrgð umfram það sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til en ljóst er að því fylgir óhjákvæmilega álag.
Ungu fólki er hættara en hinum eldri við að lenda í vinnuslysum og óhöppum en slíkt má rekja til skorts á þjálfun, starfsreynslu og vanþekkingar á mikilvægum þáttum vinnunnar en ennfremur til þess að unga fólkið er áhættusæknara en hið eldra. Mikilvægt er að kenna ungu fólki hvernig verjast megi slysum, álagsmeinum og áreitni og stuðla þannig að vellíðan þeirra í vinnu bæði nú og síðar á starfsævinni.
Markmið með vinnuverndarvikunni 2006 eru að:
• Auka þekkingu ungmenna á vinnuvernd og stuðla að því að þau séu „örugg“ frá upphafi starfsævinnar. Notkun á orðinu „öryggi“ vísar til öryggismála en einnig sjálfsöryggis og vellíðunar í vinnu
• Auka meðvitund fólks almennt í þjóðfélaginu um réttindi, skyldur og sérstöðu ungs fólks á vinnumarkaði
Gefið hefur verið út veggspjald til að minna á átakið með skilaboðum til unga fólksins. Einnig munu koma út tveir bæklingar sem hafa vinnuheitið „Örugg frá upphafi“. Annar er ætlaður ungu fólki en hinn atvinnurekendur. Í bæklingunum er lögð áhersla á réttindi, skyldur, hættur, forvarnir og vellíðan þeirra sem eru að hefja störf.