Vinnuumhverfi á bæjarskrifstofunni og nauðsyn á vinnustaðasálfræðingi
Opið bréf til bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar!
Ég hef starfað hjá Grindavíkurbæ í 7 ár sem sálfræðingur og ráðgjafi í félags- og skólaþjónustu og nú sl. 3 ár eingöngu í skólaþjónustu. Flest árin var vinnuumhverfið spennandi og framsækið þar sem unnið var eftir settum markmiðum og stefnum á jákvæðum nótum og samheldni var stolt starfsmanna á bæjarskrifstofunni. Því miður fór að halla undan fæti frá byrjun árs 2017. Síðan hefur stéttaskipting milli starfsmanna verið viðhöfð og neikvæðari samskipti innan vinnustaðarins menga andrúmsloftið og allt vinnuumhverfið.
Þrátt fyrir að ég hafi ekki hug á, eða þörf fyrir, að vinna áfram í slíku neikvæðu sundrungarumhverfi þá vil ég koma sjónarmiðum á framfæri sem líklega margir starfsmenn myndu taka undir ef á reyndi.
Í föstudagsfrétt á vf.is er haft eftir Hjálmari formanni bæjarráðs Grindavíkur þessi orð ,,Ég vil taka það skýrt fram að þrír af þessum fimm voru búnir að segja upp áður en ráðning Fannars var staðfest. Það er ekkert launungarmál að nokkrir starfsmenn höfðu fengið áminningu sem bæjarstjóri sá um að koma áleiðis en það er eftir ákvörðun meirihlutans.“
Það er ámælisvert að mínu mati að bæjarfulltrúi upplýsi um slíkar alvarlegar aðgerðir sem hvergi eru opinberlega bókaðar vegna trúnaðarskyldu. Alveg sama þó það varði mig ekki persónulega þá er vegið að samstarfsfélögum mínum. Aðdróttanir bæjarfulltrúa í frétt á vf.is 17/8 og fleiri ummæli, ásamt viðhorfi stjórnenda til starfsmanna, uppsagnir og vanlíðan fólks í vinnunni staðfesta að málið er ekki bara að sendiboðinn kom með slæmar fréttir frá bæjarstjórn. Bæjarstjóri er æðsti yfirmaður starfsmanna sveitarfélags og ber skyldur sem slíkur. Að halda því fram að bæjarstjóri sé einungis milliliður (sendiboði) á milli starfsmanna og bæjarstjórnar er heimskuleg fullyrðing og ber vott um þekkingarleysi gagnvart verkaskiptingu í stjórnkerfi sveitarfélagsins.
Fyrir liggur erindi hjá bæjarráði þar sem vakin er athygli á vinnuumhverfinu á bæjarskrifstofunni ásamt áskorun um úrbætur. Athygli vekur að erindið er skilgreint sem trúnaðarmál (að undirlagi formanns bæjarráðs) og því verða bókanir fundarins ekki opinberar. Samt sem áður hefur formaður bæjarráðs tjáð sig með óábyrgum hætti um starfsmannamál sem og þá stöðu sem uppi er og til umfjöllunar í bæjarráði í dag. Með orðum sínum fer formaður bæjarráðs með dylgjur um starfsmenn sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér enda virða þeir trúnaðarskyldu sína.
Ingibjörg María Guðmundsdóttir
Yfirsálfræðingur skólaþjónustu Grindavíkurbæjar