Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Vinnuskóli Reykjanesbæjar 2011
Föstudagur 27. maí 2011 kl. 08:39

Vinnuskóli Reykjanesbæjar 2011

Vinnuskóli Reykjanesbæjar er vinnustaður unglinga á aldrinum 14 til 16 ára. Í flestum tilfellum er um að ræða fyrstu kynni unglinga af launaðri atvinnu og því mikilvægt að vel takist til, því lengi býr að fyrstu gerð.

Yfirmaður vinnuskóla er Berglind Ásgeirsdóttir, garðyrkjufræðingur hjá Reykjanesbæ og yfirleiðbeinendur eru Ingveldur Eyjólfsdóttir og Björg Ásta Þórðardóttir sem stýra daglegum rekstri. Áhersla er lögð á að leiðbeinendur vinnuskólans séu nemendum góð fyrirmynd í leik og starfi.

Mikilvægt er að nemendur taki ábyrgð á sjálfum sér og klæði sig eftir veðri og útbúi sig vel fyrir daginn. T.d. þykja inniskór ekki sérlega hentugir í þessa vinnu svo dæmi sé tekið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Verkefni Vinnuskólans

Reynt er eftir bestu getu að hafa mikla fjölbreytni í verkefnum unglinganna, en slíkt ýtir undir vinnugleði. Flokkstjórinn er ávallt hjá sínum hópi og er hlutverk hans m.a. að kenna unglingunum rétt handtök við þau verk sem unnin eru hverju sinni. Helstu verkefni eru: almenn hreinsun á opnum svæðum, tyrfing og beðahreinsun, sláttur og rakstur, sláttur í görðum ellilífeyrisþega og öryrkja.

Reynt er eftir fremsta megni að dreifa hópunum í ýmis verkefni og einnig á milli hverfa, en þó er reynt að hafa hópana ekki mjög langt frá heimilum sínum. Þetta er mjög jákvætt, því reynslan hefur sýnt að unglingarnir fá fljótt leið á að vera of lengi í sama umhverfinu eða á sama staðnum.


Helstu verkefni Vinnuskólans eru:

Götu- og hverfahreinsun
Beðahreinsun
Sláttur og rakstur
Tyrfing
Einnig er nokkuð um það að eldri nemar fari í svokölluð sérverkefni, t.d. við aðstoð á íþrótta- og leikjanámskeiðum, stofnunum bæjarins, á golfvöllinn o.fl.
Einnig hafa eldri nemendur skólans átt kost á að fara í fjöllistahóp þar sem unnið er með leiklist með það að markmiði að lífga upp á miðsvæði bæjarins á góðviðrisdögum með uppákomum.


Vinnutímabil skólans:

Boðið er upp á tvö vinnutímabil í Vinnuskólanum þar sem nemendur velja annað hvort tímabil A sem hefst 6. júní eða B tímabil sem hefst 4. júlí. 8. bekkur fær vinnu í þrjár vikur frá mánudegi til fimmtudags en 9. og 10. bekkur fær vinnu í fjórar vikur frá mánudegi til fimmtudags. Ekki er unnið á föstudögum í sumar, með þeirri undantekningu að unnið er tvo föstudaga á A tímabili til að bjóða upp á jafn marga vinnudaga og eru á B tímabili. Laun verða greidd út um mánaðamót líkt og síðasta ár og vegna vistvænnar stefnu skólans og Reykjanesbæjar verða launaseðlar rafrænir og hægt að nálgast þá í heimabanka. Hvetjum við foreldra og nemendur til að kynna sér þessa leið hjá sínum banka.


Sláttuþjónusta

Vinnuskóli Reykjanesbæjar býður einnig eldri borgurum og öryrkjum upp á sláttuþjónustu sumarið 2011.

Vegna hagræðingar og styttri vinnutíma nema mun þessi þjónusta aðeins verða í boði í júní og júlí og er nú tekið gjald fyrir hverja umferð, sem eru 3.000 kr. Skráning fyrir eldri borgara fer fram í síma 420-3200, en öryrkjar skrá sig hjá Þjónustumiðstöð að Fitjabraut 1c gegn framvísun örorkuskírteinis.


Berglind Ásgeirsdóttir,
garðyrkjufræðingur