Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vinnur við óviðunandi aðstæður og eitrað andrúmsloft
Fimmtudagur 30. maí 2024 kl. 06:08

Vinnur við óviðunandi aðstæður og eitrað andrúmsloft

Nú undanfarið hefur verið mikil umræða um leikskólamál í Suðurnesjabæ. Ég, sem foreldri barns á Sólborg í Sandgerði, hef horft upp á brotið starfsfólk annast börnin okkar með ást og umhyggju í að verða átta mánuði. Starfsfólk sem mætir til vinnu vegna kærleika í garð barnanna en á sama tíma vinnur við óviðunandi aðstæður og eitrað andrúmsloft dag eftir dag.

Þann 1. september árið 2023 tók við nýr rekstraraðili leikskólans í Sandgerði eftir að Hjallastefnan hafði starfrækt hér leikskóla í mörg ár. Illa var farið að skiptunum og fékk ég sem foreldri á tilfinninguna að mikið lægi á að koma Hjallastefnunni í burtu. Við þurftum því að kveðja dásamlega stjórnendur Hjallastefnunnar með miklum söknuði, enda höfðu þær staðið sig með prýði í gegnum erfiða tíma heimsfaraldurs og svo litlu seinna mygluvandamáls leikskólans í samvinnu við bæjaryfirvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skólar ehf. tóku við rekstrinum og fljótt fór að bera á skrítnu andrúmslofti. Tilkynnt var hver átti að taka við sem leikskólastjóri og vegna mikillar óánægju starfsfólks og foreldra með það val var boðað til neyðarfundar. Á þeim fundi var því lofað að sú manneskja sem um ræddi kæmi aldrei til með að verða skólastjóri Sólborgar. Umræddur leikskólastjóri hafði ekki gott orð á sér sem stjórnandi og höfðu komið upp ýmis mál og umræður frá fyrri vinnustöðum hennar. Fyrrum samstarfsfólk og foreldrar á leikskólum sem viðkomandi hafði unnið hjá báru henni heldur ekki góða sögu. Ekki leið á löngu áður en sú umrædda var mætt á Sólborg til vinnu.

Fyrir rekstraraðilaskiptin var starfsfólki lofað að öll réttindi sem það hefði áunnið sér í starfi, svo sem sumarfrí, orlof og annað, myndi færast yfir til nýrra aðila. Svo kom á daginn að það átti að svíkja, þurfti að fá stéttarfélög til þess að leiðrétta það.

5. janúar gerðist sá hörmulegi atburður að Margrét okkar og Frímann maðurinn hennar létust í umferðarslysi á Grindavíkurvegi. Margrét hafði unnið í eldhúsi Sólborgar í mörg ár við mikla ánægju allra sem henni kynntust. Dásamleg kona og vel liðin af starfsfólki, foreldrum og börnum. Starfsfólk var skiljanlega harmi slegið og bað um að fá að vera í leyfi á útfarardegi Margrétar og Frímanns, til þess að geta fylgt þeim síðasta spölinn. Var starfsfólki gefið leyfi eftir hádegi en gert að mæta í vinnu fyrir hádegi þrátt fyrir að vera enn í miklu áfalli og tilfinningalegu ójafnvægi eftir að hafa misst samstarfskonu sína. Þurfti starfsfólk sem vildi vera í fríi fyrir hádegi á útfarardaginn, því að taka sér launalaust leyfi og fengu fyrir það áminningu í starfi.

Aftur var farið í stéttarfélag og áminningin dregin til baka.

Starfsfólki er stjórnað með andlegu ofbeldi og gaslýsingu. Starfsfólki er sagt upp störfum fyrir minnstu sakir og bara það eitt að standa með sjálfu sér. Andrúmsloftið á leikskólanum kalt og óþægilegt. Öll gleði, kærleikur, hlýja og væntumþykja sem fylgdi Hjallastefnunni er farin úr húsnæðinu og á móti manni mætir starfsfólk sem er svo brotið á líkama og sál, mætir bara til vinnu vegna barnanna og finn ég nú svo sterkt að fólk er búið með allt sem það átti á varatanknum.

Er þetta bara lítið brot af því sem á hefur gengið á leikskólanum Sólborgu undanfarna mánuði og stikla ég á mjög stóru.

Vandamálið í dag er í raun tvíþætt, það fyrra er húsnæðisvandi. Árið 2022 fannst töluvert mikið af myglu í báðum húsnæðum leikskólans, átti að hafa verið gert við það og allt komið í lag. Eða hvað?

Nú í vetur fer starfsfólk og börn aftur að finna fyrir myglueinkennum og beðið er eftir nýju húsnæði leikskólans, sem mun nú heita Grænaborg, með mikilli eftirvæntingu.

Fólk er því skiljanlega reitt yfir því að nýi leikskólinn hefur ekki enn opnað eftir seinkanir, bíða bæði starfsfólk og börn í örvæntingu og er neytt til þess að eyða mörgum klukkutímum á dag í óheilbrigðu og hættulegu umhverfi sem nú þegar hefur haft mjög alvarleg áhrif.

Seinna vandamálið snýr að rekstraraðila leikskólans. En stjórnendur Skóla ehf. hafa að mínu mati sem foreldri sýnt fram á algjört vanhæfi til þess að taka á erfiðum og viðkvæmum málum. Mætt foreldrum og starfsfólki með hroka og yfirgangi, upplýsingaleysi og ófagmennsku. Mín reynsla af Skólum ehf. eftir þessa átta mánuði er að fyrirtækið er rekið eins og gjörsamlega siðlaust og stefnulaust fyrirtæki. Ekki mennta- og uppeldisstofnun eins og maður hefði haldið að leikskóli ætti að vera rekinn.

Í raun er óánægjan með Skóla ehf. svo mikil í bæjarfélaginu að margir hafa velt fyrir sér flutningi héðan. Hér býr mikið af ungu fólki, fólki sem er að byggja upp sína framtíð og fjölskyldu. Kemur því til með að þurfa að nýta sér leikskóla fyrir börnin sín á einhverjum tímapunkti. Ég get ekki með nokkru móti óskað neinum að standa í okkar sporum og vera tilneydd að notfæra sér eina leikskólann hérna megin í bæjarfélaginu. Ekki út af dásamlega starfsfólkinu okkar sem ég skil í raun ekki hversu lengi hafa staðið í lappirnar undir stjórnun sem þessari. Heldur út af eitruðu andrúmslofti, bæði af myglu og svo það sem ég myndi kalla gaslýsingu og andlegt ofbeldi.

Ég hef fulla trú á því að bæjaryfirvöldin okkar leysi húsnæðisvanda vegna myglu eins og áður hefur verið gert. En ég spyr þó af því, er það ekki í höndum bæjaryfirvalda að tryggja velferð barna í bæjarfélaginu? Því ég upplifi það sem foreldri að brotið sé á barninu mínu þegar umhverfi þess í leikskólanum er svona spennuþrungið, óheilbrigt og eitrað. Ég upplifi að þegar Skólar ehf. brjóta stöðugt á starfsfólkinu sem sér um barnið mitt, þá er verið að brjóta á barninu mínu. Ég get ekki horft fram hjá því að fólkið sem hugsar svo vel um barnið mitt mæti svona framkomu frá sínum stjórnendum.

Í dag er staðan sú að leikskólinn er hálftómur, margir foreldrar reyna að halda börnunum sínum heima eftir bestu getu. Mannekla er mikil og ekki nema brot af starfsfólki skólans við vinnu. Fólk er komið í veikindaleyfi eða annarsskonar leyfi vegna álags, myglu og streitu að vinna í þessum aðstæðum.

Sandgerði er dásamlegt samfélag, hér stöndum við öll saman og hjálpum hvort öðru. Við hugsum um fólkið okkar og viljum sjá börnin okkar blómstra í leik og starfi. En það er að mínu mati ekki hægt með þennann rekstraraðila leikskólans okkar. Leikskólinn er jú fyrsta námsstig barnanna og þar ber að vanda til verka. Nú er það í höndum bæjaryfirvalda að bregðast við og ég kalla eftir breytingum. Þangað til held ég mínu barni heima.

Ása Lilja Rögnvaldsdóttir,
fjögurra barna móðir búsett í Sandgerði.