Vinnum saman

Skýr framtíðarsýn skiptir okkur miklu máli og við erum í grunninn sammála um fleira en það sem við erum ósammála um. Við viljum öll efla bæinn okkar og gera hann betri. Reykjanesbær er bær tækifæranna og hér vil ég búa. Ég hef unnið á höfuðborgarsvæðinu í 20 ár en aldrei hugsað mér annað en að búa hér í Reykjanesbæ. 
 
Í magnaðri ræðu Martin Luther King þann 28. ágúst 1963 sem ég er óþreytandi að nefna sagði hann:  „I say to you today, my friends, that in spite of the difficulties and frustration of the moment, I still have a dream...“   Þessi málsgrein kemur oft upp í huga mér.  Af hverju er ég að taka þátt í pólitík þegar meira er verið að ala á sundrung fremur en samvinnu? Neikvæðni fremur en jákvæðni? Ástæða þess er að ég á mér þann draum að Reykjanesbær verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga. Sveitarfélag með öflugasta stuðninginn við nútímafjölskyldur í skólamálum, leikskólaúrræðum frá því að fæðingarorlofi  lýkur og aðstoð við kennara. Sveitarfélag þar sem boðið er upp á úrræði á sumrin fyrir barnafjölskyldur í samvinnu við íþrótta- og tómstundafélög. Sveitarfélag þar sem heilbrigðisþjónusta og framhaldsskólar eru í fremstu röð. Sveitarfélag sem er leiðandi í sjálfbærni og grænni orku og fyrirmynd annarra í snjöllum lausnum og stafrænni umbreytingu. Sveitarfélag með öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi. Sveitarfélag þar sem öldruðum er tryggt áhyggjulaust ævikvöld og úrræði sem eru til fyrirmyndar. Sveitarfélag sem er vel rekið með hóflegri skattheimtu.
 
Framtíðarsýn okkar er mikilvæg. Öll vinna þarf að vera markviss, leiðir skýrar og sem mest af langtímalausnum. Til þess að draumurinn rætist þurfum við að stefna í rétta átt og hugsa í lausnum – við þurfum að vinna saman.
 
Það er ekki tilviljun að á sínum tíma þegar samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum var sem öflugast og miklar framfarir urðu að það var fyrir tilstilli samvinnu allra stjórnmálaflokka og allra sveitarfélaga. Þegar við hugsum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og höfum trú á sveitarfélaginu okkar þá gengur okkur betur. Við verðum skýrari í framsetningu og tölum einum rómi. Með jákvæðni að vopni og sameinuð um skýra sýn náum við árangri og leggjum grunninn að velsæld til framtíðar.
 
Vinnum saman.
 
Margrét Sanders
Skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ