Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vinnum okkur út úr vandanum
Þriðjudagur 3. mars 2009 kl. 20:52

Vinnum okkur út úr vandanum

Efnahagsvandi steðjar að Íslendingum og nú þarf að taka á. Þjóðin hefur oftsinnis áður lifað erfiða tíma en minnumst þess að hún hefur alltaf getað unnið sig út úr slíkum vanda.
Þess vegna vil ég að á næstu mánuðum verði lögð ofuráhersla á að auka atvinnu. Næg vinna er forsenda þess að heimilin, mannlífið og þjóðfélagið blómstri.

Ég vil að við virkjum mannauðinn í landinu og gefum honum kost á að vinna sig út úr vandanum. Í dag eru allt of margar vinnufúsar hendur verklausar. Því verður að breyta!
Ég vil láta opna lánasjóð atvinnulífsins. Sjóð sem leggi áherslu á að styðja við smá og meðalstór fyrirtæki.

Slík fyrirtæki eru oftar en ekki máttarstólpar og undirstaða minni byggðarlaga. Við þurfum á þeim að halda. Þau veita yfirleitt nokkrum einstaklingum vinnu, eru laus við alla yfirbyggingu, óráðssíu og prjál og auðga mannlífið hvert í sinni byggð.

Mörg slík fyrirtæki eiga nú í vanda og fá úrræði eru í boði til aðstoðar. Boðuð hefur verið aðstoð til nýsköpunar og sprotafyrirtækja og það er vel. En hvert eiga þeir sem vilja stofna hefðbundið fyrirtæki að leita og þeir sem þegar eru í rekstri? Þessi fyrirtæki þurfa mörg hver ekki mikla fyrirgreiðslu og margir þurfa ekki mikið fé til að hefja rekstur.

Áhætta tengd slíkum sjóði er ekki mikil því við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að atvinnuleysi festist ekki í sessi.

Bætur einstaklings í eitt ár nema um 2,5 milljónum króna. Margur hefur hafið blómlegan atvinnurekstur með minna á milli handanna. Nú skulum við leggjast á eitt og skapa aðstæður til að fólk geti fundið hugmyndum sínum og vinnugleði farveg.

Leggjumst öll á eitt og styðjum fólk til góðra verka.

Þóra Þórarinsdóttir,
frambjóðandi í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar á Suðurlandi á netinu 5.-7. mars.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024