Vinnandi vegur - tækifæri til þátttöku í atvinnulífinu
Atvinnuástand á Suðurnesjum er mörgum hugleikið. Atvinnuleysi mælist hér hlutfallslega mest á landinu og þannig hefur það verið um langa hríð. Hér á eftir mun ég í stuttu máli gera grein fyrir því helsta sem er á döfinni í atvinnutengdum úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum og fleiri aðila. Vinnumálastofnun hefur ákveðnu hlutverki að gegna í vinnumarkaðsmálum. Henni ber m.a. að: miðla upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda og veita þeim aðstoð við að finna störf við hæfi aðstoða atvinnurekendur við ráðningu starfsfólks og veita þeim upplýsingar um framboð á vinnuafli.
annast skipulag vinnumarkaðsúrræða, s.s. námskeiða, starfsúrræða, ráðgjöf, námsúrræða og atvinnutengdrar endurhæfingar auk þess sem hún annast skráningu atvinnulausra, útreikninga og greiðslu atvinnuleysisbóta.
Stofnunin rekur svæðisskrifstofu fyrir Reykjanes í Reykjanesbæ og þjónustar hún landsvæðið sunnan Straums, þ.e. Voga, Grindavík, Reykjanesbæ, Garð og Sandgerði.
Undanfarin misseri hafa námstengd úrræði fyrir atvinnuleitendur verið fyrirferðarmikil í starfsemi stofnunarinnar en á þessu ári er megin áhersla lögð á atvinnutengd úrræði. Nú stendur yfir átak sem vonandi á eftir að skila árangri til framtíðar. Um sameiginlegt átak samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga, stéttarfélaga og Vinnumálastofnunar (ríkisins) er að ræða og nefnist það Vinnandi vegur. Markmið þessa verkefnis er að auðvelda fyrirtækjum að fjölga starfsfólki og um leið að gefa atvinnuleitendum aukna möguleika á að fá vinnu. Þau fyrirtæki sem bæta við sig starfsfólki úr röðum fólks á atvinnuleysisskrá eiga þess nú kost að fá hluta launakostnaðar endurgreiddan. Ef fyrirtæki ræður til sín atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 12 mánuði eða lengur fær það 167.176 kr á mánuði í styrk upp í kjarasamningsbundin laun auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð. Tímabil ráðningarstyrksins getur verið allt að eitt ár. Ef atvinnuleitandinn hefur verið án vinnu skemur en 12 mánuði getur tímabil ráðningarstyrks verið allt að 6 mánuðir og miðast styrkurinn þá við bótarétt starfsmannsins. Þessir samningar eru háðir ákveðnum skilyrðum, t.d. að fyrirtækið hafi ekki sagt upp starfsfólki s.l. 6 mánuði sem gegndi sambærilegum störfum og þeim sem fyrirhugað er að ráða atvinnuleitendur í.
Átakið er tímabundið, það hófst 15. febrúar og því lýkur 31. maí 2012. Á því tímabili má gera ráðningarsamninga sem geta gilt í allt að eitt ár og eru atvinnurekendur og atvinnuleitendur hvattir til að nýta sér þetta tækifæri. Nánari upplýsingar um verkefnið fást á skrifstofu Vinnumálastofnunar Suðurnesjum og þeir sem vilja kynna sér verkefnið betur eru velkomnir þangað. Síminn þar er 421-8400 og einnig má senda fyrirspurnir á netfangið [email protected]
M. Linda Ásgrímsdóttir, skrifstofustjóri Vinnumálastofnunar Suðurnesjum