Vinna er velferð
Það er mikið rætt um að kólnun eigi sér stað í hagkerfinu og við sjáum það berlega á tölum um atvinnuleysi á Íslandi. Atvinnuleysi mældist landlægt 4,4 % í desember sl. en það mældist hæst á Suðurnesjum eða 8,7% og hækkaði um 0,3 prósentustig milli mánaða.
Aukið atvinnuleysi
Í kjölfar falls WOW air sl. vor varð samdráttur í afleiddum greinum ferðaþjónustunnar. Þó verður að taka með í reikninginn að ferðaþjónustutímabilinu lýkur í lok október ár hvert og því fylgir ársbundinn samdráttur. Þó er aukningin á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum á milli áranna 2018 og 2019 rúm 100%. Um miðjan nóvember 2018 voru 592 einstaklingar á atvinnuleysisskrá og 1.238 á sama tíma árið 2019.
Aukið atvinnuleysi felur í sér enn frekari samdrátt. Er það því hagur allra að atvinnurekendur á Suðurnesjum snúi bökum saman og vinni í sameiginlegu átaki við að ráða fólk í vinnu sem er á atvinnuleysisskrá í samfélaginu.
Ráðningarstyrkur til atvinnurekanda
Við vitum að þegar að kreppir þá er launakostnaður íþyngjandi í rekstri fyrirtækja. Við hjá Vinnumálastofnun viljum því vekja athygli atvinnurekenda á þjónustu okkar sem heitir „Ráðningarstyrkur“. Ráðningastyrkur er fjárstyrkur sem gerir atvinnurekendum auðveldara fyrir að ráða nýtt starfsfólk. Á sama tíma fá atvinnulausir tækifæri til að komast á vinnumarkaðinn að nýju. Fjárhæð atvinnuleysisbóta einstaklingsins eru greiddar til fyrirtækisins sem hluti af launum viðkomandi starfsmanns ásamt lífeyrissjóðsframlagi sem er 11%. Þar með lækkar mánaðarlegur launakostnaður fyrirtækisins þann tíma sem samningurinn er í gildi. Hámarkslengd slíks samnings eru 6 mánuðir.
Flestir geta verið sammála um að vinna sé velferð. Hún er bæði velferð einstaklinga sem og samfélagsins í heild. Atvinna og virkni er fólki nauðsynleg og rannsóknir hafa sýnt fram á að langtímaatvinnuleysi er ógn við heilsu þeirra sem fyrir því verða og getur leitt til örorku.
Starfsfólk Vinnumálastofnunar vinnur ötullega í því að koma fólki í virkni og komast þannig hjá langtímaatvinnuleysi. Stöðugt er verið að leita nýrra lausna og leiða til að mæta þessari vá í síbreytilegu umhverfi.
Við viljum því biðla til atvinnurekanda í samfélaginu á Suðurnesjum um að leggja okkur lið og kynna sér þjónustu sem þeim stendur til boða á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Ráðgjafar svara gjarnan fyrirspurnum.
Hildur Jakobína Gísladóttir,
forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum.