Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vina- og paraballið: Hvað segið þið foreldrar - er þetta í lagi?
Fimmtudagur 27. nóvember 2008 kl. 13:43

Vina- og paraballið: Hvað segið þið foreldrar - er þetta í lagi?



Margir foreldrar höfðu samband við FFGÍR að loknu Vina og paraballi sem haldið var í fyrra og óskuðu eftir umræðu meðal foreldra um ýmislegt sem þeir töldu miður.

Nú spyrja sjálfsagt margir: Bíddu, er ekki Vina- og paraball bara hið besta mál?

Svarið er að mestu: Jú - en það er ýmislegt sem þarf að fara varlega með.

Vina- og paraballið er fyrir nemendur grunnskólanna í 8. - 10. bekk og hefur verið haldið árlega frá 1999. Nemendur taka virkan þátt í undirbúningi þess og hefur það  yfirleitt farið mjög vel fram.

Fór þitt barn í limmó?
Það sem situr í foreldrum nú og hefur gert áður er tilstandið sem oft vill verða í kringum ballið og getur snúist í einelti og vanlíðan, og varla viljum við það.

Eitt vandamálið er limósínurnar. Unglingarnir leigja sjálfir þessa bíla og safna saman í hóp. En það eru ekki allir sem fá boðskort í limmann og sumir sem töldu sig í vinahópnum fengu þungan skell. Samkvæmt upplýsingum frá einu foreldri streymdu um 10 - 12 limmósínur í bæinn þetta kvöld. Einn bíllinn var stöðvaður af lögreglu því krakkarnir héngu út um gluggann og á daginn kom að hann hafði ekki leyfi til að aka bílnum. Senda þurfti eftir eiganda fyrirtækisins til að koma og ljúka akstrinum. Svo virðist sem unglingar geti sjálfir pantað limmósínu án þess að nokkur gangi í ábyrgð fyrir þeim. Sumir foreldrar höfðu ekki hugmynd um að unglingurinn þeirra væri búinn að panta slíkan bíl.Það kostar 3.000 kr. á manninn að leigja limmósínu og það er ljóst að ekki hafa allir unglingar efni á því.

Það sama má segja um annað tilstand sem fylgir ballinu sem er t.d. förðun, vax, hárgreiðsla, nýr kjóll, ný skyrta, nýir skór og svo mætti áfram telja. Kröfurnar virðast sífellt aukast og þessu fylgir mikið tilstand á heimilum sem ekki eru öll jafn vel í stakk búin til þess að standast allar þær. Sem dæmi má nefna að ein stúlka greip nú til þess ráðs að stela því á hennar heimili var ekki til peningur og önnur leitaði sér að kjól í Rauða krossinum. Sum sátu heima.

En hver býr til þessar kröfur? Við foreldrar þurfum aðeins að staldra við og hugleiða hversu mikið er nóg því þessi eyðsla á ekki bara við um Vina- og paraballið. Jólaballið er á næsta leyti sem og árshátíðin og samkvæmt upplýsingum frá þeim sem starfa á vettvangi félagsmála eru kröfurnar síst minni þá.

Foreldrar: Stillum eyðslunni í hóf og tökum ekki þátt í að skapa þrýsting, stéttarskiptingu eða aðskilnað hjá börnunum okkar.

Þess má að lokum geta að þeir foreldar sem höfðu samband töldu að ballið sjálft hefði farið vel fram og að það sé frábært framtak að mörgu leyti.

Dagný Gísladóttir
Fyrrverandi Formaður FFGÍR

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

(Foreldrafélög og foreldraráð grunnskóla Reykjanesbæjar)