Viltu ekki bara halda þig við hamingjuna?
– Anna Lóa Ólafsdóttir skrifar
Einhvern veginn svona voru viðbrögð vinar míns þegar ég sagði honum að ég ætlaði að taka þátt í bæjarmálunum og bjóða mig fram í sveitarstjórnakosningunum þann 31. maí n.k. og vísar hann í greinaskrif mín í gegnum árin undir heitinu Hamingjuhornið. Það vantaði bara hjá honum: láttu bara einhverja aðra um alvöru málin!!
Hamingjan og pólitíkin eru bara alls ekki óskyld mál og þegar ég er að beita mér fyrir því að hækka hamingjustigið í samfélaginu er ég þræl pólitísk. Hamingjan snýst nefnilega um það að hafa skoðanir á hlutunum og finna tilgang og merkingu með lífi sínu. Hamingjusamur er sá maður sem veit hvað hann vill og sækist eftir að ná því fram. Ég vil hafa áhrif á samfélagið mitt og skrefin sem ég tek núna eru í eðlilegu framhaldi af því sem ég hef verið að gera undanfarin ár.
Ég flutti hingað 2005, hafði búið hér áður í 9 ár en flutti í burtu þegar ég fór í háskóla. Þegar ég flutti aftur á Suðurnesin var mikill uppgangur enda verið að byggja upp nýtt hverfi og við héldum enn að við værum að upplifa eitthvert peningastefnu-undur hér á landi. Við vitum svo sem hvernig fór fyrir því undri og á þessu svæði þekkjum við það allt of vel.
Við höfum þurft að takast á við erfiða tíma hér á Suðurnesjum og mun ég aldrei gera lítið úr þeim. Ég hef sjálf starfað með atvinnuleitendum og horft upp á ýmislegt miður uppbyggilegt á þessum árum en líka séð fjöldann allan af einstaklingum taka skrefin í átt að betra lífi á þessu tímabili. Málið er nefnilega að það skiptir svo gríðarlega miklu máli að við upplifum að við höfum einhverja stjórn á því hvert við stefnum í lífinu og afsölum okkur ekki þeim réttindum til annarra. Pólitík er ekki fyrir einhverja aðra - pólitíkin stýrir því hvert er farið með samfélagið okkar og okkur má ekki vera sama. Við þurfum ekki öll að takast á í innsta hring en það skiptir gríðarlega miklu máli að við höfum skoðun á því hvernig við viljum að bærinn okkar sé.
Framtíðin
Mér þykir vænt um Reykjanesbæ og tek nærri mér að sjá hvernig komið er fyrir bænum og verst finnst mér kannski þegar ég heyri íbúana tala um að þeir séu búnir að missa trúna á því að hér sé yfirleitt hægt að breyta einhverju. Vonleysi er vondur staður að vera á og grefur undan frumkvæði og baráttuvilja. Við verðum að trúa því að hér sé hægt að snúa hlutunum okkur í hag og þrátt fyrir að ýmislegt hafi vantað upp á t.d. þegar atvinnumálin eru annars vegar þá skiptir svo miklu máli að við séum tilbúin að horfa í nýjar áttir en ekki einblína á atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Loforð um að nú sé allt að fara af stað þar finnst mér varhugaverð og til þess fallin að einstaklingar bíða óþreyjufullir eftir einni stórkostlegri lausn í stað þess að vera að huga að fleiri og fjölbreyttari verkefnum. Hvaða stefnu vilja íbúar í atvinnumálum? Við hljótum að vera sammála um að fjölbreytt atvinnulíf er nauðsynlegt til að sem flestir finni vinnu við hæfi. Hér þarf að skapa frjóan jarðveg fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og þrátt fyrir að það sé mikilvægt að sú fjárfesting sem bundin er í Helguvík nýtist til atvinnuuppbyggingar þá verður það að gerast í samráði við íbúa og með fullu tilliti til þeirra umhverfisáhrifa sem slík uppbygging getur leitt af sér.
Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera samfélagið okkar að ákjósanlegum stað til að búa í - já, stað sem byggir á dugnaði, bjartsýni og frumkvæði íbúa sem vita hvað þeir vilja. Þetta verkefni þurfum við að takast á við í sameiningu og eina loforðið sem ég mun gefa 100% er að ég mun hvergi slá slöku við. Fyrir ykkur sem haldið jafnvel að líf mitt hafi verið ein hamingju- og sældarbuna og mér sé lítt treystandi til að takast á við ,,alvöru“ málin, þá er það bara alls ekki þannig. Hef fengið minn slatta af verkefnum lífsins sem koma til með að nýtast mér í baráttunni framundan. Hamingjusamt líf er ekki líf án erfiðleika - snýst frekar um hver þú ert þegar erfiðleikarnir steðja að og hvort þú sért tilbúinn að læra af reynslunni. Sá sem gerir alltaf það sama - fær alltaf það sama.
Það er kominn tími á breytingar!!
Anna Lóa Ólafsdóttir
Í framboði fyrir Beina leið