Viltu bæta námsárangur hjá barninu þínu með góðu verklagi?
Hryllingssagnahöfundurinn Stephen King er gríðarlega afkastamikill rithöfundur. Afrek hans á ritsviðinu er kannski auðveldara að meta í hillumetrum en fjölda bóka, svo mikið liggur eftir hann. Einu sinni var Stephen í viðtali hjá blaðamanni. Honum fannst mikið til um afköstin og spurði Stephen hvernig í ósköpunum hann hefði farið að því að skrifa allar þessar bækur? Stephen horfði á hann þegjandi nokkra stund en svaraði svo: Það var ekkert mál, ég skrifaði bara einn staf í einu! Auðvitað er þetta hárrétt hjá karlinum, með þessu verklagi verða stafirnir að orðum, orðin að setningum, setningarnar að málsgreinum, málsgreinarnar að bókarköflum og bókarkaflarnir enda að lokum sem bók. Stephen hefur auðvitað verið lúsiðinn og skipulagður líka, annars hefði hann ekki afkastað jafnmiklu og raun ber vitni.
Aðferð Stephens má heimfæra yfir á flesta hluti sem við mannfólkið tökum okkur fyrir hendur, hvort heldur það er að byggja hús, leysa erfitt vandamál, ala upp börn eða ná góðum árangri í námi. Það þarf að skipuleggja sig og búta markmiðið sem maður ætlar sér að ná niður í smærri viðráðanlegar einingar og takast svo á við hvern bút eða einingu, ljúka honum, raða bútunum saman og þannig koll af kolli. Svo er auðvitað mikilvægt að halda áfram og vera ekki endalaust að hugsa um hlutina heldur ganga í verkið og framkvæma.
Þetta verklag að hluta stórar einingar niður í smærri einingar einkennir að ég held flesta þá sem ég þekki sem skara fram úr, hver á sínu sviði. Þetta er til dæmis mjög mikilvægt í námi. Til að barnið þitt nái góðum árangri er ekki nóg að mæta í próf og þreyta það. Árangurinn byggir á því að það hafi sett sér raunhæf markmið og verkáætlun í samræmi við getu, mætt vel í tímana, fylgst vel með og æft þá færni í skólanum og í heimanáminu sem síðan er ætlunin að skila af sér með mælanlegum hætti í prófinu. Þú og kennarar barnsins þurfa auðvitað að styðja við barnið með því að skipuleggja, meta jafnóðum hvar það er statt, hvetja það og hjálpa því að missa ekki sjónar á markmiðinu, en aðalatriðið er að taka bara eitt skref í einu eða skrifa bara einn staf í einu svo vísað sé í aðferð Stephens King. Það góða við þessa nálgun er að sé rétt að staðið nánast tryggir það að hjá barninu kvikni einlægur áhugi á námi og löngun til að standa sig vel. Rannsóknir sýna einmitt að ein öruggasta leiðin til að tryggja að barnið nái árangri er að vekja áhuga þess á náminu. Sjálfkvæmur áhugi á námi kviknar ef barnið upplifir sig sem sigurvegara í náminu og það gerir það ef þú beitir þessari nálgun á námið. Ef þér tekst að vekja áhuga barnsins á náminu margfaldast líkurnar á því að barninu þínu vegni vel í lífinu og það er auðvitað markmiðið með þessu öllu. Gangi þér vel.
Gylfi Jón Gylfason
yfirsálfræðingur.