Viltu bæta námsárangur hjá barninu þínu? – Heimanám
Megintilgangur heimanáms er að þjálfa færni sem kennarinn er búinn að kenna á skólatíma. Þetta er augljósast á fyrstu árum skólagöngu þegar verið er að kenna lestur, skrift og reikning. Barn sem ekki fær viðeigandi þjálfun í lestri, skrift og reikningi, mun ekki ná góðum tökum á því sem því er ætlað að kunna. Barn sem vinnur ekki heimanám er líka líklegt til að trufla kennslu og skemma fyrir sjálfum sér og öðrum. Ef barnið nær ekki tökum á undirstöðunni dregst það aftur úr í námi og mun eiga mjög erfitt með að tileinka sér það sem kennt er á mið og unglingastigi. Heimanámið er því gríðarlega mikilvægt. Með því að ná góðum tökum á heimanáminu og sinna því vel alla grunnskólagönguna tryggirðu að barnið sé vel þjálfað í því sem það þarf að kunna, og þannig bætirðu námsárangur barnsins. En hvernig eykur maður líkurnar á því að heimanámið gangi vel fyrir sig?
Þjálfun er aðalatriðið
Mundu að megintilgangur heimanáms er að þjálfa. Almennt gildir um þjálfun að betri árangur næst ef þjálfuninni er dreift yfir á marga daga, fremur en að barnið vinni alla heimavinnuna í einum rykk, til dæmis á laugardegi. Þetta er sérstaklega mikilvægt í grunnfærni eins og lestri, skrift og stærðfræði þar sem barnið ætti að lesa, skrifa og reikna heima á hverjum degi, en tiltölulega stutt í senn. Það skilar bestum árangri.
Foreldrar kvarta oft undan því að þeir skilji ekki hvað barnið á að gera í heimanáminu. Þetta er sérstaklega algengt í stærðfræði. Oft stafar þetta af því að fyrir slysni hefur kennarinn sent heim heimanám sem hann er ekki búinn að kenna í skólanum. Ef þetta gerist er sjálfsagt að ræða málið af hreinskilni við kennarann.
Allir þreyttir
Mundu að þú og barnið þitt eruð að vinna heimavinnuna þegar þið er orðin þreytt eftir langan vinnudag. Þess vegna skaltu hafa vinnuloturnar hæfilega langar og hafa pásur á milli verka. Þú getur spjallað við barnið í pásunum og gert eitthvað skemmtilegt með því. Þá nær barnið að einbeita sér betur þegar það er að vinna heimanámið.
Saddur og sællegur
Gott ráð er að gefa barninu eitthvert snarl áður en hafist er handa. Flestum fellur illa að vinna á fastandi maga og barnið þitt er engin undantekning þar á.
Vinnuskipulagið
Gott er að byrja á einhverju einföldu, fara svo yfir í það sem er barninu erfiðara og ljúka síðan heimanáminu með léttari verkefnum. Þá gengur barninu betur.
Sama stund
Best fer á því að heimanámið sé ætíð unnið á svipuðum tíma dags. Það minnkar líkurnar á því að barnið verði með mótþróa og reyni að fresta því að vinna það.
Sami staður
Best er að heimanámið sé yfirleitt unnið á sama stað. Til dæmis við eldhúsborðið. Þú getur þá verið að sýsla í eldhúsinu á meðan og hjálpað barninu þegar þess er þörf. Flestum börnum fellur raunar mjög vel ef þú situr allan tíma hjá barninu á meðan það er að vinna heimanámið.
Endurgjöf og yfirferð er mikilvæg
Heimanám skilar mestum árangri ef kennarinn fer yfir það og gefur barninu mat á það hvernig það var unnið, leiðréttir villur og hrósar fyrir það sem vel er gert. Því þarf heimanámið að vinnast í góðri samvinnu við kennara barnsins.
Heimanám er gæðastund
Mundu að heimanámið á að vera notaleg stund, tækifæri fyrir þig til að taka þátt í því sem barnið er að kljást við. Þú einsetur þér þess vegna að umgjörðin um heimanámið sé hlý, þú hrósar barninu fyrir það sem vel er gert og beitir kímnigáfunni óspart. Gott ráð er að nota svokallaða ömmureglu til að láta heimanámið ganga vel. Þá umbunarðu barninu fyrir heimanámið með því sem það vill gera eða vill fá. Þú getur til dæmis sagt; Þú mátt fara út að leika þér þegar þú ert búin að læra heima, eða; Þú mátt fara í tölvuna þegar þú ert búinn með heimanámið. Tilvalið er einnig að nota umbunarkerfi eða samninga til að barnið sjái tilgang í heimanáminu. Gættu þess bara að láta barnið ekki fá umbunina áður en það er búið að ljúka heimanáminu.
Gangi þér vel að sinna heimanáminu með barninu þínu.
Gylfi Jón Gylfason
yfirsálfræðingur.