Villandi fréttaflutningur í Fréttablaðinu um Festu lífeyrissjóð
Í frétt á forsíðu Fréttablaðsins mánudaginn 30. mars s.l. um skerðingu réttinda hjá lífeyrissjóðum, má ætla að Festa lífeyrissjóður muni skerða réttindi sjóðfélaga og út frá fyrirsögn fréttarinnar má álykta að sú skerðing verði 10%. Hið rétta er að tryggingafræðilegur halli sjóðsins er 8% í árslok 2008. Samkvæmt lögum má tryggingafræðilegur halli ekki vera meiri en 10%. Stjórn sjóðsins er því ekki skylt að skerða réttindi samkvæmt lögum. Á fundi stjórnar þann 18. mars s.l. var hinsvegar ákveðið að fresta ákvörðun um hugsanlegar réttindabreytingar til aprílfundar. Var það gert í ljósi þess að árið 2009 er ekki að byrja vel og vildi stjórn sjóðsins hafa gleggri upplýsingar í höndum áður en endanleg ákvörðun er tekin í þessu efni. Ef stjórn sjóðsins ákveður að breyta réttindum, verður um að ræða væga skerðingu á bilinu 2-3%. Þess má geta að réttindi sjóðfélaga voru síðast aukin um 4% árið 2007. Í þessu sambandi er einnig umhugsunarvert að lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga hækkuðu um 16,4% á árinu 2008, eða sem nemur verðbólgu ársins.
Samkvæmt samantekt Fjarmálaeftirlitsins var meðalraunávöxtun lífeyrissjóða -21,5% árið 2008. Þar kemur einnig fram að 10 lífeyrissjóðir þurfa að skerða réttindi þar sem tryggingafræðilegur halli þeirra er yfir 10%. Nafnávöxtun Festu lífeyrissjóðs á árinu 2008 var -5,6% og raunávöxtun að teknu tilliti til verðbólgu var -18,8%. Þetta er ívið betri niðurstaða en áðurnefnt meðaltal lífeyrissjóða.
Gylfi Jónasson
Framkvæmdastjóri