Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vill ekki þjóðhagslega hagkvæmni
Laugardagur 25. apríl 2009 kl. 13:14

Vill ekki þjóðhagslega hagkvæmni

Undirritaður fór á fund hjá Vinstri Grænum í Kjarna í fyrradag til þess að hlusta á hvað háttvirtur fjármála,landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra hafði að segja um stjórnmálaástandið almennt og síðan svaraði hann fyrirspurnum frá fundargestum.

Það vantar ekki að hann kann að tala þessi ágæti maður, hann kann einnig að svara spurningum sem beint er til hans, EN hann svaraði fyrirspurn minni um það sem brennur mest á hjá mér. Spurning mín var þessi og tvíþætt. Er þjóðhagslega hagkvæmt að reka tvo flugvelli í aðeins 30 kílómetra fluglínu hvors annars og hvort það yrði ekki mikill þjóðhagslegur ávinningur á því að flytja alla flugtengda starfsemi til Keflavíkur svo að Reykjavík fengi kjörið landsvæði til að eflast í miðbænum eins og mjög margir vilja.

Hann svaraði á þá leið að hann vildi ekki að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni en ef hann færi einhvern tímann væri hann hlynntari Keflavík en nýjum flugvelli í grennd höfuðborgarinnar. Hitt svarið var þannig að landsvæðið sem kæmi til eftir að flugvöllurinn yrði fluttur er ekki eins verðmætt og menn vildu akkúrat núna vegna kreppunnar, sem sagt, áfram verður hangið á þessu þrætumáli langt inní framtíðina.

Háttvirtur ráðherra sagði að það væri mjög mikill kostnaður sem fylgdi því að flytja starfsemina til Keflavíkur og það væri ekki þjóðhagslega hagkvæmt. Ég fór eftir þetta svar af fundinum, ég var ekki sáttur og þykir það skjóta skökku við að ekki megi skoða þá möguleika að hagræða og þróa flugtengda starfsemi til framtíðar með það að leiðarljósi að leita allra leiða til að hafa þjóðhagslega hagkvæmni að leiðarljósi.

Þetta kalla ég lélega framtíðarsýn á mjög svo brýnt baráttumál fyrir okkur Suðurnesjamenn og fyrir þjóðarbúið í heild.

Núna skiptir máli að spara og þetta er borðleggjandi dæmi um það.

Kveðja

Tómas J. Knútsson



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024