Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Vill einhver segja mér hvað er að gerast?
Fimmtudagur 20. febrúar 2014 kl. 15:10

Vill einhver segja mér hvað er að gerast?

– Hannes Friðriksson skrifar

Er öllu er á rönguna snúið 

öllu virðist vera á botninn hvolft

og allt sem var til bara búið 

og gufað upp í loft. 


Vill einhver segja mér hvað er að gerast?
Hvað er að eiga sér stað ?
Segja mér við hvern er að sakast,

svo ég viti hvað er að?



Það er ekki að ástæðulausu að þessi  erindi  úr laginu “Sökudólgur óskast” með hljómsveitinni Nýdönsk  komi oft upp í hugann þegar sest er niður og farið yfir þróun mála í Reykjanesbæ undanfarin tólf ár. Hvergi á landinu öllu breytast aðstæður jafnmikið  á jafn undraverðum hraða og hér í Reykjanesbæ, ef marka má þau gögn er meirihlutinn leggur nú fram með jöfnu millibili.

Ég fjallaði nýlega í grein um þau gögn er lögð voru fram við fyrri umræðu tíu ára fjárhagsáætlunar bæjarins. Sem sýndu hvorki góða stöðu nú, eða næstu tíu árin . Ljóst var að og reyndar er áfram að mestan hluta framkvæmda meirihlutans undanfarin tólf ár á ennþá eftir að borga. En skjótt skipast veður í lofti, í stað þungbúinnar framtíðarspár er nú allt breytt. Sólin skín sem aldrei fyrr þó á móti blási. Meirihlutinn hefur aftur fundið óvæntan pening, tekjur munu aukast og skuldir greiddar hraðar niður en nokkurn óraði fyrir að hægt væri.

Á innan við hálfum mánuði hefur tíu ára áætlun meirihlutans breyst um tæpa þrjá milljarða, akkúrat þá milljarða sem vantaði til að sýna að hægt væri að framkvæma fyrir eigið fé en ekki sölu eigna eins og var í þeirri fyrri.  Þrír milljarðarnir koma í formi skattekna  þeirra er eiga eftir að flytja í bæinn á komandi árum. Við skulum gleðjast yfir að eins og áður falli nú allt með okkur á nýjan leik, og vona að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga samþykki þá áætlun er ekki var afgreidd á fundi bæjarstjórnar, heldur vísað til baka í bæjarráð til nánari úrvinnslu að ósk minnihlutans.

Það væri gott að geta deilt þeirri sýn með meirihlutanum að nýjar skattekjur  væru svipaðar lottovinningi sem unnt væri að ráðstafa að vild.  En svo er ekki. Fjölgun íbúa þýðir ekki bara auknar tekjur, heldur aukast útgjöldin í takt.  Tvöföldun skattekna á tíu ára tímabili er gott markmið en vart raunhæft. Það samsvarar því að allir íbúar á Arnarnesi með þær tekjur sem þeir hafa hafa nú  flytjist til bæjarins. Reisi menn skýjaborgir er betra að vita hvernig þær koma til með að líta út.

Slík áætlun sem tíu ára áætlunin er getur ekki orðið að kosningarplaggi meirihlutans sem hægt er að breyta eins og vindarnir blása hverju sinni. Hún er yfirlýsing til Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga um hvernig bærinn  ætlar að  vinna sig úr því hyldjúpa skuldafeni sem meirihlutinn hefur sökkt sameiginlegum sjóðum bæjarbúa í  undanförnum árum. Hún er sjálfur lykilinn að framtíð þeirra barna okkar og barnabarna sem velja þann kost að setjast að í bænum okkar. Hana ber að vanda svo unnt sé að standa við hana.

Með bestu kveðjum,

Hannes Friðriksson
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024