Vilji er allt sem þarf - segir Helga Sigrún
Í síðasta tbl. Víkurfrétta var vitnað til könnunar sem Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan lét gera á meðal fyrirtækja á svæðinu undir yfirskriftinni „Atvinnulíf og menntun á Suðurnesjum“. Skýrslan, sem geymir niðurstöður könnunarinnar, ber heitið „Reykjanes 2003“ og birtir spá um íbúaþróun, þátttöku í atvinnulífi, þróun atvinnuleysis og skiptingu ársverka. MOA vinnur nú að undirbúningi annarrar slíkrar könnunar „Reykjanes 2005“ sem notuð verður til samanburðar og til að spá fyrir um og greina þarfir atvinnulífsins næstu ár.Hver er staðan?Út frá þeim gögnum sem söfnuðust í könnuninni má gera ráð fyrir að skortur verði á vinnuafli á svæðinu á næstu árum og er hann nú þegar farinn að gera vart við sig í einstökum greinum. Atvinnuleysi á svæðinu er með því minnsta sem gerist á landinu, og hefur ekki mælst minna síðan 1988. Í apríl 2000 mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 0,9% og er um að ræða, í flestum tilvikum, fólk sem staldrar mjög stutt við á atvinnuleysisskrá. Almennt efnahagsástand í landinu hefur haft mikil áhrif á þróun íbúa- og atvinnumála hér á Suðurnesjum síðustu árin. Hlutfallsleg fólksfjölgun var 1,4% árið 1999 og hefur ekki verið meiri síðan 1987-88. Helstu breytingar í atvinnulífinu felast í aukningu í þjónustugeiranum en störfum í fiskvinnslu hefur fækkað jafnt og þétt. Á heildina litið hefur stöðugildum fjölgað frá árinu 1995 og fjölgar enn frekar á næstu árum samkvæmt spám „Reykjaness 2003“. Í Reykjanesi 2003 kemur fram að skortur er á faglærðu starfsfólki þó einkum faglærðum iðnaðarmönnum. Þá töldu forsvarsmenn fyrirtækja að talsverðar breytingar þyrftu að verða á næstu 3-5 árum hvað menntun varðar, atvinnulífið muni gera kröfur um meiri menntun og þá sérstaklega iðngreinarnar. Allir í framhaldsnám?Með því að greina þarfir atvinnulífsins eins og gert var í Reykjanesi 2003, er til orðið öflugt stjórntæki sem gerir Suðurnesjamönnum kleift að afla sér forskots á aðra landshluta og sérstöðu hvað stefnumótun í atvinnumálum varðar. Ekki er einungis þörf fyrir góða almenna menntun heldur einnig þörf á að viðhalda þeirri þekkingu og reynslu sem nú þegar er til staðar í atvinnulífinu. Hvað er nám og menntun? Menntun er ekki einungis það að stimpla sig inn í skóla og ljúka prófi með formlegum hætti, heldur einnig það að sækja aukna þekkingu og færni með markvissum og meðvituðum hætti. Í samfélagi sem sífellt krefst meiri þekkingar, verður leiðandi hlutverk Miðstöðvar símenntunar æ mikilvægara. Með nánu samstarfi atvinnulífs, bæjar- og sveitarstjórna, menntastofnana og verkalýðs- og vinnuveitendafélaga er mögulegt að halda mikilvægri þekkingu inni í fyrirtækjum og viðhalda nauðsynlegri þjálfun vegna tækniframfara og nýjunga í atvinnulífinu.Já, en nú er góðæri!Nú kann einhverjum að finnast þessar hugleiðingar tímaskekkja í góðærinu þegar næg atvinna er fyrir alla og enginn þarf að óttast það að fá ekki „eitthvað“ að gera. En er „eitthvað“ nóg? Í góðæri fá þeir sem eru vel þjálfaðir og búa yfir færni á sínu sviði, betri starfstækifæri, sem skila sér í mörgum tilvikum beint í launaumslagið að ekki sé talað um starfs-ánægju. Flestum finnast einnig forréttindi að „fá að vinna við það sem þeim finnst skemmtilegt“. Í mörgum tilvikum getum við sjálf haft áhrif á þau réttindi með markvissu vali á menntun okkar en góð menntastefna atvinnurekenda sem vinnur stöðugt að því að gera launþega sína öflugri starfskrafta, getur gert gæfumun fyrir einstaklinginn og um leið fyrirtækið.Helga Sigrún Harðardóttir, atvinnuráðgjafi MOA