Víkjumst ekki undan ábyrgð
Þangað til um daginn hafði Sjálfstæðisflokkurinn verið samfellt í ríkisstjórn í 18 ár - næstum allan þann tíma í stjórnarforystu. Á þessu skeiði urðu gríðarlegar framfarir á Íslandi, - lífskjör þjóðarinnar stórbötnuðu og velmegun jókst á öllum sviðum.
Af þessu eigum við sjálfstæðismenn að vera stoltir. Þjóðin treysti okkur til þessara verka og við brugðumst ekki því trausti. Af sömu hreinskiptni og við
erum stolt og upplitsdjörf af okkar góðu verkum eigum við ekki að víkja okkur undan ábyrgð á því sem hefur misfarist á Íslandi síðustu misserin og árin. Og
þetta snýst ekki um lögfræðilega sekt eða sýknu eða bið eftir skýrslum rannsóknarnefnda, - þetta snýst um pólitík.
Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á því með Framsóknarflokknum að við einkavæðingu bankanna lentu þeir í höndunum á þröngum hópi eigenda og stjórnenda sem höfðu hvorki siðferðisvitund né viðskiptavit til að eiga þá og reka.
Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á því með Framsóknarflokknum og Samfylkingunni að ekki var búið þannig um hnútana með regluverki og eftirlitsstofnunum, að öllu efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar stafaði ekki bráð hætta af óstjórnlegri og siðlausri græðgi og getuleysi örfárra eigenda og stjórnenda fjármála- og útrásarfyrirtækja.
Sjálfstæðismenn bera ábyrgð á því með Samfylkingunni að sofa á verðinum löngu eftir að allar viðvörunarbjöllur voru farnar að hljóma - bæði innan lands og utan - um að útrásarvíkingarnir og bankarnir þeirra væru að hrinda íslensku efnahagslífi fram af björgum. Það voru engin bremsuför á fjallsbrúninni – við
þeyttumst viðstöðulaust fram af.
Í þessu fyrst og fremst felst hin pólitíska ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Við eigum að axla hana og læra af henni en ekki reyna að víkjast undan henni.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins nú í mars þarf að gera upp við þessa atburðarás, - marka skýra og trúverðuga stefnu um leiðina út úr þessum ógöngum
og gefa nýrri forystu ótvírætt umboð til að feta þá leið. Ef okkur tekst jafnframt að ná fram nauðsynlegri endurnýjun á framboðslistum flokksins í öllum
kjördæmum og kalla nýtt og kraftmikið fólk til verka getum við gengið teinrétt og bjartsýn til komandi kosningabaráttu.
Íris Róbertsdóttir
Grunnskólakennari í Vestmannaeyjum
Sækist eftir 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi