Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Viðsnúningur til verri vegar í mars
Sunnudagur 7. apríl 2019 kl. 07:00

Viðsnúningur til verri vegar í mars

-Nesfiskur kaupir tvö skip frá Höfn í Hornafirði

Þegar þessi pistill er skrifaður þá er 1. apríl og því er spurning hvort maður geti skrifað hvaða vitleysu sem er hérna og látið ykkur lesendur velkjast í vafa um það hvort það sé satt eða gabb. Óháð því hvort þessi pistill sé gabb eða sannleikur þá er kannski best að byrja á það sem mætti kalla leiðinlegi hlutinn.

Marsmánuðurinn er liðinn og eins og hann byrjaði vel þá endaði hann hörmulega, í það minnsta fyrir minni bátanna. Þeir náðu að róa nokkuð duglega fyrstu dagana í mars og fram undir 20. mars. Eftir það þá var stanslausar brælur og sem dæmi þá réri Bergur Vigfús GK síðast 15. mars enn ekkert eftir það. Von GK réri 22. mars og svo var hún stopp í átta daga. Dóri GK var stopp í þrettán daga. Ef horft er á minni bátana þá voru Addi Afi GK og Guðrún Petrína GK stopp frá því um miðjan mars og náðu ekkert að róa eftir það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tíðin hafði líka mikil áhrif á handfærabátana sem náðu eiginlega ekkert að róa í mars nema í byrjun mánaðar og um miðjan mars. Ef farið er í aðeins stærri báta þá reyndu þeir að komast út en þurftu þá bara fara grunnt með landinu. Vésteinn GK komst t.d. aðeins í fjóra róðra frá 22. til 31. mars. Aflinn var einnig mjög slakur. Einn bátur náði þá að kroppa aðeins fleiri róðra enn aðrir. Það var Hafrafell SU 65, sem áður var Hulda GK. Báturinn fór nefnilega inn í Faxaflóa og meðan verstu veðrin voru að ganga yfir fór báturinn til Reykjavíkur og lagði línuna t.d. útaf Kjalarnesinu og að mynni Hvalfjarðar. Reyndar var veiðin hjá bátnum þar ekkert sérstök, ekki nema um 5,5 tonn í tveimur róðrum. Vonandi verður nú aprílmánuður aðeins skárri í það minnsta veðurfarslega séð miðað við hvernig marsmánuður var.

Marsmánuður telst vera stærsti netamánuðurinn á árinu og var veiði netabátanna mjög góð.  Þeir náðu að komast frekar oft út, enda voru þeir flestir komnir inn í Faxaflóa og voru með netin grunnt frá landi. Grímsnes GK er með 230 tonn í 24 róðrum. Erling KE 376 tonn í 21. Maron GK 173 tonn í 23. Halldór Afi GK  77 tonn í 23. Hraunsvík GK 71 tonn í 21. Valþór GK 60 tonn í sextán. Bergvík GK með 54 tonn í átta róðrum en Bergvík GK réri einungis í byrjun mars, fór til Grindavíkur og ekkert meira. Sunna Líf GK átti góðan mánuð. Var með 93 tonn í aðeins tólf róðrum.

Sömuleiðis var mjög góð veiði hjá dragnótabátunum. Nýr bátur hóf veiðar og landaði í Sandgerði, er það Ísey ÁR sem áður var Gulltoppur GK. Landaði hann 8,9 tonnum í einni löndun. Aðalbjörg RE var með 73 tonn í tólf löndunum. Benni Sæm GK með 215 tonn í sextán og mest 36 tonn í einni löndun, sem er kjaftfullur bátur. Siggi Bjarna GK með 217 tonn í sautján og Sigurfari GK 252 tonn í sautján löndunum.

Þrír síðastnefndu bátarnir eru allir í eigu Nesfisks og núna hefur verið ákveðið að kaupa tvo báta af Skinney Þinganesi á Hornafirði. Munu Nesfiskur kaupa Hvanney SF og mun sá bátur koma í staðinn fyrir Sigurfara GK. Hvanney SF er þekktur bátur hérna á Suðurnesjum því hann hét fyrst Happasæll KE. Hinn báturinn sem hefur verið keyptur er togbáturinn Steinunn SF, sem er 29 metra togbátur og hefur þessi bátur átt góðu gengi að fagna undanfarin ár og var t.d. aflahæstur allra 29 metra trollbáta á landinu árið 2018 með yfir 6.000 tonna afla.

Það er smá tenging við Sandgerði varðandi Steinunni SF. Nei, báturinn hefur aldrei komið til Sandgerðis með afla, heldur er tengingin sú að einn af skipstjórunum á Steinunni SF er Sandgerðingurinn Sævar Ólafsson sem er gríðarlega reynslumikill og fiskinn skipstjóri. Ég sjálfur hef reynslu af því hversu fiskinn Sævar er því ég var með honum á Þór Péturssyni GK frá Sandgerði. Saga Sævars og togbáta í Sandgerði er mjög löng og má segja að Steinunn SF sé fyrsti báturinn sem Sævar sé skipstjóri á þar sem hann hefur ekki komið til löndunar í Sandgerði. Þessi togbátur Steinunn SF er viðbót í flota Nesfisks og verður gerður út á togveiðar.