Viðbrögð við grein Andra S. Magnasonar
Rithöfundurinn Andri Snær Magnason skrifaði ágæta grein sem var birt í Fréttablaðinu 18. október sl. Greinin lýsir hvort í senn viðhorfum Andra til atvinnumála á Íslandi en einnig er hún upplýsandi fyrir margra hluta sakir. Andri bendir réttilega á þá staðreynd að áliðnaðurinn stendur fiskiðnaði langt að baki er varðar efnahagslegt framlag til þjóðarbússins. Það er einnig rétt hjá Andra að varast ber misvísandi samanburð þegar talað er um heildarvirði útflutningstekna áliðnaðarins og annarra greina. Í öllum tilfellum eru eigendur álfyrirtækjanna erlendir aðilar, hið sama gildir ekki um fiskiðnaðinn né ferðaþjónustuna. Hér má ítreka mikilvægi fjölmiðla, þ.e. að réttilega komi fram hver hin efnahagslegu áhrif eru sem áliðnaðurinn skilar til landsins. Eitt og sér mun álið ekki bjarga þjóðinni né tryggja hér efnahagslega velsæld um alla framtíð.
Umræðuöfgar
Hins vegar eru laun starfsmanna, skattar og greiðsla fyrir orku mikilvægur hlekkur í daglegum rekstri og lifibrauði nokkurra þéttbýliskjarna s.s. Hafnarfjarðar, Akranes og byggðarkjarna á austurlandi. Áliðnaðurinn er það sem hann er. Hann heimfærir trygga og vel launaða atvinnu til þúsunda einstaklinga og þá um leið fjölskylda hér á landi. Andri verður að gæta sín í lýsingum sínum á efnahagslegum áhrifum áliðnaðar á Íslandi. Á sama tíma og hann sakar almannatengla álfyrirtækjanna um ýkjusögur þá fellur hann sjálfur í þá gryfju að tala hin raunverulegu áhrif fyrirtækjanna niður. Hann m.a. minnist ekki einu orði á þau fjölmörgu óbeinu störf sem fylgja þessum iðnaði. Einnig er ekki minnst á hlutverk flutningafélaga í grein Andra en rétt er að bæði innlend og erlend flutningafélög starfa fyrir álfyrirtækin. Öfgar í báðar áttir ber að varast. Þá finnst mér eins og hann tali á léttvægum nótum um þá 2 milljarða eða þrjá sem Alcoa á austurlandi greiðir í laun á þessu fámenna svæði. Ég bý í Reykjanesbæ. Við stóðum á tímamótum ekki alls fyrir löngu þegar launagreiðslur upp á 2-3 milljarða þurrkuðust upp eins og dögg fyrir sólu þegar varnarliðið hvarf af landi brott. Engu síður eru íbúar Reykjanesbæjar 3 sinnum fleiri en á umræddum byggðarkjörnum á austurlandi. Þessi störf eru sannarlega gulls ígildi og varast ber að tala þau niður. Gildir þá einu hvort launagreiðandinn sé með íslenskt vegabréf eða ekki.
Marel & Össur í fjórða veldi
Hún er óneitanlega falleg sú framtíðarsýn sem Andri lýsir í grein sinni. Hann bendir á félög eins og Össur, Marel, CCP eða Actavis. Hann vill sjá fleiri sambærileg félög hér á landi. Ég tek undir þetta en minni jafnframt á þá staðreynd að skattaumhverfi fyrirtæki á Íslandi hefur hjálpað nokkuð til við rekstur fyrirtækja hér á landi. Félögum af þessu tagi mun hugsanlega fjölga hér á landi þá sérstaklega vegna þess að eyjuna byggir duglegt fólk með nokkuð hátt menntunarstig. Fyrst um sinn verður erfitt að nálgast lánsfé til ýta stórum verkefnum úr vör en það mun lagast. Við getum vonast eftir hinu besta og látið okkur dreyma um glæsta framtíð en það er ansi hætt við því að atvinnulausir Íslendingar muni ekki sætta sig við draumana eina og sér. Af hverju má framleiðsla á áli ekki vera til á Íslandi samhliða félögum af þessu tagi? Er það mengunin? Skyldu úrlausnarefni framtíðar vera frekar þrá okkar og sameiginlegur metnaður til að vinna bug á menguninni?
Er þetta svo alslæmt?
Nú í október var skrifað undir samning um hátækni- og sprotavettvang í iðnaðarráðuneytinu. Með samningnum er leitast við að bæta starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja. Í september var sérstakt markaðsátak í ferðamálum kynnt en 100 milljónum króna verður varið á næstu mánuðum til að markaðsetja Ísland erlendis sem áhugaverðan áfangastað í haust og vetur. Í september skrifuðum við Íslendingar einnig undir samning um græna orkuþróun hjá eyþjóðum þar sem Íslendingar verða leiðandi í þróun á tækni og aðferðum til þess að auka notkun endurnýjanlegrar orku hjá eyþjóðum. Ég vona að mannorð Íslendinga muni ekki glatast við þessi ágætu störf sem bíða okkar á alþjóðavettvangi. Rithöfundar, pistlahöfundar, listamenn og aðrir sem sjá Ísland í rómantísku ljósi bera ábyrgð. Við berum öll ábyrgð. Varast ber að tala niður til okkar sjálfra. Varast ber að tala niður til einstakra atvinnugreina. Við verðum að nýta okkar orkulindir og að sama skapi verður okkur að vera ljóst að þær eru takmarkaðar. Losunarheimildir stíga jafnframt á þétt á bremsu okkar. Þetta vitum við hin sem erum engu að síður á þeirri skoðun að nýta beri það svigrúm sem er til staðar í atvinnumálum þjóðarinnar. Vængbrotin þjóð verður nú sem aldrei fyrr að vinna að frekari uppbyggingu á undirstöðugreinum þjóðarbússins, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, hátækni og stóriðju. Ungt fjölskyldufólk hrópar á ný tækifæri, nýja framtíð.
Gunnar Örn Örlygsson
Fiskútflytjandi - Reykjanesbæ