Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 16. júní 2004 kl. 10:08

Viðbrögð við afsökunarbeiðni

Georg Brynjarsson, fyrrverandi formaður ungra Sjálfstæðismanna er sár yfir skrifum mínum í síðast tbl. Bæjarmála.  Þar fjallaði ég um frammistöðu meirihluta Sjálfstæðismanna í atvinnumálum.  Ég fjallaði m.a. um yfirlýsingar forystu Sjálfstæðismanna um að ef þeir næðu kjöri þyrftu menn ekki að óttast samdrátt hjá hernum, en ef þeir næðu ekki kjöri væri voðinn vís.  Ég nefndi aðgerð ungra Sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar þegar þeir stóðu með kröfuspjöld og hvöttu starfsfólk á vellinum til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn annars væri það að kjósa frá sér vinnuna.  Ég dró þá ályktun í gæsku minni að þetta hafi ekki verið illa meint hjá þeim, þeir hafi bara ekki vitað betur.  Ég vildi trúa að þau hefðu látið blekkjast af áróðri sinna forystumanna. 

Afsökunarbeiðni
Georg segir m.a. í greininni sinni “Það er afskaplega dapurt að sjá kennaramenntaðan oddvita Samfylkingarinnar tala með svo niðrandi hætti um ungt fólk sem vill taka þátt í stjórnmálum og gera því skóna að það sé heilaþvegið af flokksforystunni”.  Þó það komi menntun minni e.t.v. lítið við þá er það alveg rétt hjá honum að ég vildi frekar trúa því að þessir ungliðar hefðu látið blekkjast, frekar en að þeir hafi vitað betur, þegar þeir stóðu þarna.  Það á að vera öllum ljóst sem fylgst hafa með þróun mála undanfarinn ár að það var og er enn yfirvofandi verulegur samdráttur.  Georg vill ekki samþykkja þá skýringu að hann hafi ekki vitað betur og vill að ég biðji hann afsökunar fyrir að hafa verið með ranga skýringu.  Ég tel mér því skylt að gera það, ég bið þig Georg minn afsökunar á þessu.  Mér þykir hins vegar verra að þurfa að trúa því í staðinn að þú hafir verið að plata kjósendur vísvitandi.

Ungliðahreyfingar.
Í grein sinni talar Georg um mikilvægi ungliðahreyfinga og að sjálfsögðu er hann hrifnastur af þeirri hreyfingu sem hann hefur kosið að starfa með.  Hverjum þykir sinn fugl fagur eins og þar stendur.   Ég hef hins vegar fengið að njóta þess að fylgjast með öflugri hreyfingu ungra jafnaðarmanna hér í bæ.  Það er líka rétt hjá Georg að við sem eldri erum eigum að vera ungliðum okkar flokka góð fyrirmynd. Ég hef alla tíð lagt áherslu á að við sem erum í stjórnmálum eigum að segja satt, jafnvel þó sannleikurinn sé stundum óþægilegur.  Sem dæmi má nefna að ég hef, fyrir nokkrar síðustu kosningar, bent á að samdráttur væri framundan hjá hernum.  Við þyrftum því að búa okkur undir það og nýta þau tækifæri sem gætu skapast við samdráttinn til að skapa ný störf.  Mörgum, einkum þeim sem unnið hafa hjá hernum þótti þessi málflutningur minn óþægilegur.  Það hefði samt verið rangt af mér að reyna að segja fólki eitthvað annað.
Forystumenn annarra framboða kusu að gera lítið úr vandanum og hlutu fylgi m.a. fyrir það.  Einmitt þess vegna erum við illa undir það búin nú að takast á við þann vanda sem samdrættinum fylgir.
Georg, að lokum vil ég gefa þér og þínum samherjum eitt ráð, ráð sem ég hef gjarnan haldið að ungliðum í mínum flokki og reynt, eftir bestu samvisku að hafa í heiðri sjálfur.   Hafa skaltu það sem sannara reynist – ekki bara það sem betur hljómar.

Kveðja
Jóhann Geirdal
Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024